Bergur fer í framboð undir merkjum VG
„Það er rétt, það hefur verið leitað til mín um að gefa kost á mér í komandi kosningum og ég ætla að gera það. Ég mun sækjast eftir einu af efstu sætunum, líklega 2. sæti, í komandi prófkjöri hjá Vinstri grænum,“ segir Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar í fréttatilkynningu til Víkurfrétta
Ég vona að Suðurnesjamenn styðji við bakið á mér í prófkjörinu því ef vel tekst til þá eigum við raunhæfan möguleika á að koma Suðurnesjamanni á þing. Ég hef í gegnum tíðina mest beitt mér á vettvangi umhverfis- og náttúruverndar en það eru fleiri málaflokkar sem standa huga mínum nærri og því spennandi að færa sig yfir á breiðari vettvang. Ég hef fengið mikinn stuðning hjá þeim sem ég hef borið þetta undir og nú þegar eftirspurn er eftir breytingu á mannaskipan á Alþingi er rétti tíminn fyrir nýtt fólk, segir í tilkynningunni.
Bergur er efnafræðingur og starfaði sem heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja frá árinu 2000 þar til hann var ráðinn framkvæmdastjóri hjá Landvernd vorið 2006. Áður starfaði hann við smíðar. Bergur hefur réttindi sem svæðisleiðsögumaður eftir nám sem Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum stóð fyrir í samvinnu við Leiðsöguskóla Íslands. Hann hefur tekið að sér leiðsögn, jafnt ofan sjávar sem neðan, en hann hefur einnig réttindi til kennslu í sportköfun og hefur kennt við Sportköfunarskóla Íslands. Bergur er Suðurnesjamaður fæddur, uppalinn og búsettur í Keflavík.