Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Bergmál bjarnarins
Fimmtudagur 17. apríl 2008 kl. 10:05

Bergmál bjarnarins

Það hefur ekki farið fram hjá okkur Suðurnesjamönnum sú aðför dómsmálaráðherra að lögreglu- og tollstjóranum á Suðurnesjum, sem fram verður haldið til afgeiðslu á Alþingi á næstu dögum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Af þeim gögnum sem ég hef skoðað og upplýsingum sem mér hafa borist má vera ljóst að ekki hafi staðið til hjá dómsmálaráðuneytinu að leiðrétta þann halla embættisins sem stofnað var til þegar embætti Keflavíkurflugvallar heyrði undir utanríkisráðuneytið. Utanríkisráðuneytið hafi gefið embættinu fyrimæli um umframkeyrslu en látið hjá að gera upp dæmið eftir á, eða fjárheimildir leiðréttar. Þessi skekkja hafi síðan fylgt í sameiningarferli nýs embættis lögreglu- og tollstjórans á Suðurnesjum.

Rétt er á þessu stigi að benda á niðurstöðu í skýrslu Ríkisendurskoðunnar, frá í júlí 2006, um rekstur embættisins á Keflavíkurflugvelli, þar sem segir að í ljósi aukinna og nýrra verkefna bæri að tryggja meiri fjárheimildir í fjárlögum. Að málið yrði skoðað og niðurstaða fengin í tengslum við breytingar sem þá stæðu yfir. Halló!

Þegar fjárlagaáætlun fyrir þetta ár var í smíðun hafi dregist að fá svör frá ráðamönnum vegna ætlaðrar hækkunnar á sértekjum embættisins og þess vegna ekki hægt að skila til dómsmálaráðuneytisins neinum fastmótuðum tölum. Þetta vissi ráðuneytið en tók ekki mið af við gerð fjárlaga og tillögum til fjárlaganefndar þingsins. Það er því fyrirsláttur hjá ráðherra að bera við seinni komu fjárhagsáætlunarinnar í febrúar, þar sem endanlega varð ljóst að um 200 milljónir króna þyrfti til viðbótar, svo reka mætti embættið. Þessu hefði ráðuneytið þó mátt vera ljóst. Ætla mætti viljaleysi ráðherra frekar en ætlaða óráðsíu lögreglustjóra valda fjárhagsstöðu embættisins í dag.

Dómsmálaráðherra þvertók fyrir þessa leiðréttingu, sem m.a. tók mið af þvi að fjölga lögreglumönnnum nærri þeirri tölu sem samþykkt skipurit gerir ráð fyrir. Lög- og tollgæsla er í dag undirmönnuð og mikið álag á starfsmönnum. Ráðherra kallaði eftir tillögum um hvernig mætti reka embættið í samræmi við fjárlög. Tillögurnar sem bárust voru síðan dómsmálaráðherra ekki að skapi, enda óraunhæft að ætlast þessa með þau spil sem hann gaf lögreglu- og tollstjóranum að spila úr. Í kjölfarið komst málið í fjölmiðla.

Eina nótt datt ráðherra niður á það snjallræði að skipta embættinu upp og leysa þannig vandann, að því er hann hélt.

Björk Guðjónsdóttir, þingmaður Suðurnesjamanna, tók undir hugmyndir dómsmálaráðherra um að skipta upp embættinu og færa starfsemina undir hvert sitt fagráðuneyti. Þar vísaði hún til þess í ræðu sinni á Alþingi að rétt væri að þessu væri háttað með sama hætti og almennt gerist á landinu.

En Björk, þannig er þessu ekki háttað og því rétt að leiðrétta þig. Sýslumenn og lögreglustjórar fara með stjórn tollgæslu á landinu öllu utan Reykjavíkur/Höfuðborgarsvæðis. Vopnaleit er að því er ég best veit ekki falin samgönguráðuneytinu og er um allt land í höndum lögreglustjóra. Þó hefur hún fallið í hendur einkareksturs á Reykjavíkurflugvelli. Er þar faglega tekið á hlutunum, eða kannski það sem þú vilt? Hverra hagsmuna gæta þeir?

Nánast allir starfsmenn embættisins hafa lýst yfir stuðningi við Jóhann Benediktsson, sem og fjölmargir mætir menn í þjóðfélaginu, þ.á.m. Árni Sigfússon, bæjarstóri og fjöldi þingamanna úr öllum flokkum. Starfsmönnum finnst sem þeim sé haldið í gíslingu og vilja vinnufrið og reksrtaröryggi embættis sem er og hefur verið vel stýrt af Jóhanni.

Þegar björninn rymur í ráðaleysi sínu eykur Björk og ýmsar aðrar sjalfstæðiskepnur á ringulreiðina með því að bergmála vitleysuna úr honum. Þessi lausn dómsmálaráðherra er í raun engin lausn á vandanum, mun frekar vanhugsuð útleið bjarnar sem sér ekki hina skynsömu leið, þrátt fyrir allt.

Bjök, ertu kannski bara ný á þingi og þorir ekki?

Góðar stundir.

Loftur Kristjánsson
rannsóknarlögreglumaður