Beina brautin - Úrvinnsla skuldamála fyrirtækja
Í desember s.l. var undirritað víðtækt samkomulag um úrvinnslu skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Markmið samkomulagsins er að flýta fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja. Samkomulagið tekur mið af fyrirtækjum í fjárhagsvanda sem skulda allt að 1.000 m.kr.
Gert er ráð fyrir að samkomulagið nái til um 6.000 fyrirtækja í bankakerfinu og er áætlað að tillögugerð um fjárhagslega endurskipulagningu þeirra fyrirtækja sem falla undir samkomulagið verði lokið fyrir 1. júní næstkomandi.
Hvað felst í hinu nýja samkomulagi?
Samkomulagið byggir á því að forsendur fyrir áframhaldandi rekstri fyrirtækis séu til staðar og endurskipulagningin sé líkleg til að tryggja sem best hagsmuni kröfuhafa, starfsmanna og eigenda. Samkomulagið leggur upp með að heildarskuldir fyrirtækis að lokinni endurskipulagningu fari ekki fram úr rekstrarvirði eða endurmetnu eignavirði, hvort heldur er hærra. Einnig verða ábyrgðaskuldbindingar eigenda eða þriðja aðila endurskoðaðar á grundvelli greiðslugetu og eignastöðu viðkomandi.
Fyrirtæki sem ennfremur eru í vanskilum með opinber gjöld sem hafa gjaldfallið fyrir 1. janúar 2010 geta sótt um frest til greiðsluuppgjörs á skuldinni. Einnig mun tollstjóra vera heimilt að fallast á beiðni um niðurfellingu tekjuskatts að hluta, ef tollstjóri telur að hagsmunum ríkissjóðs sé betur borgið með slíkri niðurfellingu.
Í samkomulaginu felst úrræði fyrir fyrirtæki í skuldavanda við að finna lausn á sínum málum og koma þeim á beinu brautina. Það liggur því fyrir að vinna við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja mun verða skilvirkari og fljótlegri. Framkvæmdin við úrvinnslu skuldamála getur þó falið í sér umtalsverða undirbúningsvinnu af hálfu forsvarsmanna fyrirtækjanna. Þegar vel er að því staðið getur það bæði flýtt fyrir og einfaldað ferlið. Ekki er ólíklegt að viðkomandi fjármálastofnanir óski eftir staðfestum ársreikningum síðustu ára, ítarlegum sjóðsstreymisáætlunum, verðmati ásamt öðrum gögnum sem skipta máli við endurskipulagningu fyrirtækisins.
Forsvarsmenn fyrirtækja sem telja að fyrirtæki sín falli undir þetta nýja samkomulag eru hvattir til að leita til viðskiptabanka sinna til að fá frekari upplýsingar um samkomulagið. LS Finance, fjármálasvið Lögfræðistofu Suðurnesja, hefur undanfarin misseri aðstoðað fyrirtæki við fjárhagslega endurskipulagningu og er forsvarsmönnum fyrirtækja velkomið að hafa samband við okkur til þess að fá aðstoð og hlutlausar ráðleggingar.
Haukur Skúlason, hagfræðingur og Kristján P Kristjánsson, viðskiptafræðingur eru starfsmenn hjá LS Finance ehf. í Reykjanesbæ.