Bein leið áfram
Um áramót er rétt að staldra við og velta fyrir sér stöðunni eins og hún birtist manni. Við sem höfum starfað innan framboðs Beinnar leiðar höfum gert það og komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé fyrir framboðið að bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum sem eru framundan.
Það kom fljótlega í ljós eftir síðustu kosningar að verkefnið, sem takast þurfti á við, var mjög stórt í sniðum. Sú aðlögunaráætlun sem þá var til staðar var úr gildi fallin þar sem markmið hennar náðust ekki og því þurfti að gera nýja, sem uppfyllti kröfur eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.
Að því hefur verið unnið allt þetta kjörtímabil og á ýmsu hefur gengið, en nú er í gildi samkomulag við nefndina með hvaða hætti sveitarfélagið muni ná þeirri stöðu að skulda ekki meira en sem nemur 150% af tekjum.
Skv. þeirri aðlögunaráætlun munum við ná því marki árið 2022 og þar með uppfylla þær lagalegu skyldur sem okkur ber að gera.
Margt hefur unnið með okkur á þessu kjörtímabili en þess hefur verið gætt allan þennan tíma að auka ekki útgjöld umfram áætlanir og því er staðan sú að vænta má góðrar afkomu af rekstri fyrir árið 2017. Það hefur ekki gerst af sjálfu sér.
Núverandi meirihluti lagði áherslu á það í málefnasamningi sínum að reyna eins og kostur væri að verja kjör fjölskyldna hér í bæ og styðja við bakið á ungviðinu okkar. Það höfum við gert, m.a. með því að hækka hvatagreiðslur verulega, bjóða upp á ókeypis ritföng í grunnskólum, koma á systkinaafslætti milli skólastiga og bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar með ýmsum hætti.
Áfram verður haldið á þeirri braut fái Bein leið til þess nægan stuðning í næstu kosningum. Verkefnið sem við tókum í fangið sumarið 2014 er ekki komið í höfn og því mun Bein leið halda áfram. Framboðið hefur sýnt það í verki að á það er hægt að treysta.
Gleðilegt nýtt ár.
Guðbrandur Einarsson
forseti bæjarstjórnar og oddviti Beinnar leiðar