Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Barnið sem var alltaf að ljúga
  • Barnið sem var alltaf að ljúga
Laugardagur 10. maí 2014 kl. 17:24

Barnið sem var alltaf að ljúga

– Gunnar Hörður Garðarsson skrifar

Þegar ég var ungur, bara lítill strákur í grunnskóla, þá fannst mér ég alltaf vera svolítið útundan. Ég upplifði mig ekki sem hluta af neinum hóp og var fljótur að uppgötva að ég hlyti að vera eitthvað skrítinn. Mér fannst það ekki gaman, ég hló af því og gerði grín af því og fór að segja ósannar sögur af sjálfum mér til þess að sanna fyrir hinum krökkunum að ég væri sko kannski skrítinn en samt væri ég mjög töff. Það var svo mikilvægt að vera töff. Sem barn laug ég svo mikið að öðrum og sjálfum mér að ég var farinn að trúa lyginni, búa í henni. Þannig var ég farinn að byggja upp sjálfan mig út frá einhverjum atvikum sem gerðust aldrei og láta þau samt móta mig sem einstakling, falskan einstakling. Það þarf ekki að spyrja að því en fljótlega eftir grunnskólagönguna sprakk sápukúlan sem ég bjó í og ég brotnaði saman.
 
Við gerum þetta stundum, þá meina ég við öll, við ljúgum að okkur. Það er ekki alltaf meðvitað, kannski sjaldnast meðvitað, en okkur finnst þægilegt að búa til nýjan sannleika eða afbaka það sem fyrir er til að sætta okkur við það sem við erum eða það sem við höfum. En þessi árátta okkar um að reyna að vera eitthvað annað en við erum er veruleikaflótti sem mun aðeins uppskera svo miklu fleiri vandamál og vanlíðan en sápukúlan, sem við vildum gjarnan búa í, leysir. Til þess að leitast við að leysa vandann þurfum við að horfast í augu við hann.
 
Horfumst í augu við vandann og vinnum í honum 
Í dag er Reykjanesbær svolítið eins og ég þegar ég var barn að ljúga að sjálfum mér og öðrum. Svo föst er stjórn bæjarfélagsins í viðjum sjálfsblekkingar að það er ekki nokkur vegur að sjá hvað við höfum og hvert við stefnum. Reykjanesbær er 20 ára í ár, er það ekki tilvalinn tími til að sprengja sápukúluna, horfast í augu við vandamálin og fara að vinna í okkar málum? 
 
Gunnar Hörður Garðarsson
6. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar og óháðra í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024