Baráttan á Austurvegi staðið í sex ár og alltaf sömu svörin
Vegna athugasemdar við frétt Stöðvar 2 frá því í gær sem Ingvar Þ. Gunnlaugsson yfirmaður tæknideildar Grindavíkurbæjar birtir hér á vf.is og á heimasíðu Grindavíkurbæjar vill Ingibjörg Björgvinsdóttir, sem vitnað er til í athugasemdinni koma eftirfarandi á framfæri:
„Á þessum 6 árum sem ég hef staðið í þessari baráttu hef ég fengið þau svör að það ætti að gera eitthvað þegar vorar, en aldrei er staðið við það. Ég hef talað við þrjá bæjarstjóra og þrjá byggingafulltrúa á þessum árum. Það er ekki eins og þessi barátta sé að byrja núna. Ég hef farið á nokkra fundi, gengið í hús og fengið undirskriftir hjá íbúum hverfisins.
Á þessum tiltekna fundi þann 18. janúar sl. voru sömu svör og áður. Það sem ég er að benda á er að það þarf að gera eitthvað til bráðabirgða til að stoppa þennan hraðakstur strax. Svo í vor, ef þeir standa við orð sín þetta árið, geta þeir breytt þessu.
Það eiga nánast allar fjölskyldur hér í Grindavík barn sem æfir íþróttir þess vegna snertir þetta alla bæjarbúa. Það tekur aðeins sekúndu að keyra yfir einstakling þess vegna á ekki að bíða með þetta. Auðvitað eru fleiri götur hér í bæ sem þarf að laga, en hér er aðalíþróttasvæði barnanna og þess vegna ætti þetta að vera í forgangi. Ef marka má samtöl milli mín og þeirra bæjarbúa sem ég hef hitt í dag eru allir hjartanlega sammála mér.
Yfirmaður tæknideildar Grindavíkurbæjar hefði ekki átt að láta sér koma á óvart að þetta kæmi í fréttirnar því ég lét hann vita símleiðis í gærmorgun að ég ætlaði með þetta í fréttirnar og hann sagði mér endilega að gera það.
Með kveðju,
Ingibjörg Björgvinsdóttir“.
Myndirnar eru frá slysi sem varð á Austurvegi í Grindavík fyrir nokkrum árum og er rakið til hraðaksturs. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson