Aðsent

  • Bann og brostnar vonir
  • Bann og brostnar vonir
    Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Laugardagur 28. nóvember 2015 kl. 08:00

Bann og brostnar vonir

Ríkisstjórnarflokkarnir samþykktu með fjárlögum 2015 að fækka nemendum í framhaldsskólum með því að setja fjöldatakmarkanir á nemendur 25 ára og eldri sem vilja stunda bóknám. Þegar menntamálaráðherrann svaraði gagnrýni á þessa „menntastefnu“ þá gerði hann lítið úr afleiðingunum og sló úr og í. Hann nefndi að best væri að í skólunum væru nemendur á svipuðum aldri og æskilegt að framhaldsskólarnir væru ungdómsskólar. Ekki væri mögulegt að beita aldurstengdum fjöldatakmörkunum í starfsnámi því þar væri meðalaldur nemenda um 25 ár. Skólum væri auk þess ekki bannað að innrita eldri nemendur þó fjárveitingar til þeirra gerðu ráð fyrir fækkun nemenda.  Sem sagt: þeir mega taka við eldri nemendum en fá ekki endilega borgað fyrir að kenna þeim.

 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Afleiðingar koma í ljós

Nú, aðeins einu ári seinna hafa afleiðingarnar þegar komið í ljós. Þær eru ekki í samræmi við fyrri svör ráðherrans. Í framhaldsskólunum hefur nemendum 25 ára og eldri fækkað um 447 í bóknámi og um 295 í list- og verknámi, alls um 742 einstaklinga. Skilaboðin um fjöldatakmörkun hafa augljóslega orðið til þess að þeir sem eru 25 ára eða eldri sækja síður um skólavist og telja sig ekki lengur velkomna í framhaldsskólana.

 

Öll  þekkjum við  fólk sem hefur flosnað upp úr framhaldsskólanámi eða orðið að hætta vegna ýmissa ófyrirsjáanlegra aðstæðna svo sem veikinda eða fjárskorts. Við þekkjum líka öll fólk sem hefur farið aftur í framhaldsskóla í heimahéraði eftir slíkt hlé. Mörg þeirra voru orðin 25 ára og hafa lokið stúdentsprófi og háskólaprófi í kjölfarið. Þau starfa um allt land, í leikskólum, grunnskólum, heilbrigðisstofnunum og tæknigreinum svo dæmi séu tekin. Landsbyggðin hefur treyst á menntun og störf þessara einstaklinga. Nú er búið að loka fyrir þessa leið. Það er mikill missir fyrir einstaklingana sem hafa ekki tækifæri til að styrkja stöðu sína með öðrum hætti. Missirinn verður ekki síður mikill fyrir samfélagið í heild til lengri tíma litið.

 

Landsbyggðirnar tapa

Rannsóknir sýna að gott aðgengi að námi skiptir miklu ef hækka á menntunarstig þjóðar. Menntamálaráðherra hefur ferðast um landið og talað um mikilvægi læsis og menntunar fyrir hagvöxt og hagsæld í landinu. Á sama tíma skerðir hann aðgengi að menntun sem mun koma harðast niður á ungu fólki á landsbyggðinni. Þeim er boðið í staðinn að flytja búferlum og fara í einkaskóla á Suðurnesjum, Reykjavík eða í Borgarfirði eða stunda dreifnám við þá skóla með ærnum tilkostnaði. Enginn vafi er á að með þessari ráðstöfun mun opinberum störfum á landsbyggðinni fækka enn frekar og erfiðara verður að fá fólk með fagmenntun til starfa. Byggðastefna ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er í besta falli handahófskennd en þessi menntastefna  er einfaldlega rugl. Ómögulegt er að átta sig á hvort ráðherrarnir og þingmennirnir sem þá styðja, eru að koma eða fara í þeim efnum. Það verður að taka af þeim völdin áður en frekari skaði hlýst af vanhugsuðum ákvörðunum þeirra.

Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar