Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Bankaránið mikla og hin þrúgandi þögn
Laugardagur 28. maí 2011 kl. 10:59

Bankaránið mikla og hin þrúgandi þögn

Ég tók þátt í aðalfundi Félags stofnfjáreigenda SpKef sl. fimmtudag. Upplýsingarnar sem komu fram á fundinum voru vægast sagt sláandi. Maður hafði heyrt ýmsar sögur úti í samfélaginu á liðnum mánuðum en á fundinum þá sá maður staðreyndirnar svart á hvítu. Mig langar að draga nokkra meginstaðreyndir fram í dagsljósið í þessu greinarkorni, því þetta þurfa allir að vita.

Árið 2007 fór fram mikill áróður fyrir stofnfjáraukningu í SpKef. Stofnfjáreigendur voru meira að segja hvattir til að taka lán til að geta keypt meira stofnfé. Fólk var blekkt til að auka stofnfé sitt og var matað á röngum upplýsingum hjá bankanum.
Þegar hrunið var í aðsigi, haustið 2008, fóru nokkrir einstaklingar fram á að innleysa stofnfé sitt og sendu beiðni þess efnis til stjórnar Sparisjóðsins. Þetta fólk fékk neitun hjá stjórninni. Á sama tíma og þetta fólk fékk neitun, innleysti fyrrverandi sparisjóðsstjóri stofnfé sitt og sonar síns, og færði það yfir á eignarhaldsfélag sitt. Fleiri stjórnendur innan Sparisjóðsins gerðu slíkt hið sama, innleystu stofnfé og færðu það yfir á félögin sín. Ég er ekki dómari en innherjasvik er orðið sem kemur upp í hugann þegar maður fær slíkar upplýsingar.
Eftir mikla rannsóknarvinnu á vegum félags stofnfjáreigenda hefur komið í ljós, svo ekki verður um villst, að örfáir einstaklingar stofnuðu ógrynni eignarhaldsfélaga á fáum árum. Sömu einstaklingar voru jafnvel í stjórnum annarra eignarhaldsfélaga, hjá vinum og vandamönnum, þannig að þessi hópur fólks tengdist mikið innbyrðis. Félögin áttu það öll sameiginlegt að hafa fengið háar fjárhæðir að láni hjá SpKef og voru með litlar eða jafnvel engar tryggingar á bakvið sig. Mörg þessara félaga urðu ansi skammlíf og skuldirnar þá afskrifaðar.

Áhyggjufullt ævikvöld
Dæmin sem dregin voru upp á aðalfundinum voru ótrúleg. Venjulegum leikmanni er nánast ófært að skilja hvernig svona hlutir geta átt sér stað. Ég tek það fram að ég er hvorki stofnfjáreigandi eða viðskiptamaður hjá Sparisjóðnum og hef því engra fjárhagslegra hagsmuna að gæta með þessari umfjöllun. Það sem fékk mig til að skrifa þessa grein var fólkið á fundinum. Þegar ég horfði yfir salinn þá sá ég að meirihluti fundarmanna var fólk komið á efri ár. Fólk sem VANN fyrir sínum launum með blóði, svita og tárum. Fólk sem þekkti ekki sýndarveröld þeirrar fjárglæframennsku og svika sem viðgengist hafa á Íslandi undanfarin ár. Fólk sem í góðri trú lagði sparnaðinn sinn inn hjá Sparisjóðnum og TREYSTI því að vel yrði farið með þá svo það gæti átt áhyggjulaust ævikvöld. Nú eru þessir peningar farnir og koma sennilega ekki aftur. Stór hluti stofnfjáreigenda hefur ekki tíma til að vinna upp tapið. Lífsklukkan tifar, svoleiðis er það bara.

Hinn órjúfanlegi þagnarmúr
En hvers vegna þessi þögn? Hvers vegna hefur svo lítið verið fjallað um bankaránið mikla í Keflavík? Er það smæð samfélagsins og innbyrðis tengsl? Er það vanmáttur fjölmiðla? Áhugaleysi fjölmiðla? Pólitík?
Ég vona að þögnin hafi verið rofin og að fjölmiðlar, Alþingi og allir sem vettlingi geta valdi fari ofaní saumana á þessu máli, svo slíkt eigi sér ekki stað aftur. Ég vona líka að stofnfjáreigendur muni standa þétt saman í baráttunni sem framundan er og að réttlætinu verði fullnægt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Myndin er frá fundi stofjáreigenda í Spkef í vikunni.