Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sunnudagur 5. mars 2006 kl. 21:13

Bankahneyksli í Sandgerðisbæ

Ég gladdist mjög þegar ég frétti að gamli bankinn minn,Sparisjóðurinn í Keflavík, ætlaði að opna útibú í Sandgerðisbæ.Ég er gamall Keflvíkingur og var alltaf með öll viðskipti mín í Sparisjóðnum áður og líkaði vel við höfðingjana þar.Ég hugsaði strax að þeir í Sparisjóðnum eiga nú eftir koma vel fram við fólkið hér eins og þeirra er von og vísa.Mér hefur td. ekki fundist Landsbankinn sýna fólki hér mikla virðingu með því að stytta opnunartíma útibúsins.Þeir hafa sjálfsagt verið fegnir að losna við þetta sveita útbú þegar þeir seldu Sparisjóðnum það.
En það eru umskiptin úr einum banka í annan,sem ég og fleiri íbúar í Sandgerðisbæ höfum verið að furða okkur á.Mér finnst þau jaðra við ókurteisi,vægt til orða tekið. Það eru ákveðin formsatriði sem hafa algjörlega gleymst í þessum viðskiptum Landsbankans.Þeir gleymdu að tala við skotsilfrið sjálft, þe.viðskiptavinina.

Í fyrsta lagi þá fréttum við það í blöðunum að Landsbankinn væri búinn að „selja viðskiptavini“ sína yfir í Sparisjóðinn. Skemmtilegra hefði verið að Landsbankinn hefði nú sent okkur viðskiptavinum sínum bréf um þessar breytingar en ekki að við læsum um þær í blöðunum.Það hefði nú líka verið almenn kurteisi og fallega gert af yfirmönnum Landsbankans að þakka fólki fyrir viðskiptin í sama bréfi en bankinn hefur verið í 40 ár í Sandgerði.

Sparisjóðurinn var kurteis og sendi verðandi viðskiptavinum bréf þar sem þeir buðu þá velkomna í viðskipti. Sparisjóðurinn tilkynnti formlega þessar breytingar og framtíðaráform í Sandgerði, opnunartíma ofl. Þeir taka við útibúinu mánudaginn 6.mars en þar til erum við í viðskiptum hjá Landsbanka, gott og vel.

En svo gerðist það um helgina sem toppaði virðingarleysi Landsbankans gagnvart viðskiptavinum sínum. Þetta var líklega helgin þar sem tæknilegir flutningar áttu sér stað.Þar sem ekkert bréf hafði borist okkur viðskiptavinum um þessi viðskipti Landsbankans með okkur,þá vissum við heldur ekki að reikningar okkar yrðu lokaðir alla helgina!Sem sagt, ég fór inn á heimabankann minn hjá Landsbankanum og þar var mér tjáð að reikningurinn minn væri bara alls ekki til!Ég fór ásamt manninum mínum út í Samkaup stuttu seinna og keypti í helgarmatinn.Þegar komið var að okkur í röðinni og við ætluðum að borga matinn,þá var okkur tjáð að engin innistæða væri á reikningnum!Ha,engin innistæða? Það var nýbúið að leggja laun mannsins míns inn á reikning Landsbankans þannig að þetta passaði ekki.En við áttuðum okkur fljótt á því hvað væri að gerast. Reikningskortin voru ónothæf á meðan tölvukerfi bankanna tveggja voru að skipta okkur yfir á Sparisjóðinn.Landsbankinn hafði bara ekki tilkynnt okkur það að einhver óþægindi myndu hljótast af þessum flutningum bankanna þessa umræddu helgi.Það hefði nú verið í lagi.Nei, þeir höfðu heldur ekki sent okkur bréf um þetta, allt mjög óþægilegt. Þarna stóðum við eins og illa gerðir hlutir en áttum VISA kort til að redda okkur út úr þessum vandræðum!

Hvernig stendur á þessum dónaskap og þessu virðingarleysi gagnvart okkur viðskiptavinum?Þessi framkoma Landsbankans er fyrir neðan allar hellur og mér þætti vænt um afsökunarbeiðni og skýringar af hálfu bankans.Þetta er skólabókardæmi um hvernig ekki á að gera hlutina. Svona kveður maður ekki gamla vini sína.

Mikið verður gaman að koma aftur í viðskipti hjá persónulegri bankastofnun, Sparisjóðnum!

Marta Eiríksdóttir íbúi í Sandgerðisbæ.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024