Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Bætum hag eldri borgara
Föstudagur 29. mars 2013 kl. 12:53

Bætum hag eldri borgara

Sjálfstæðisflokkurinn fer fram með skýra stefnu um lækkun skatta á næsta kjörtímabili enda eru skattalækkanir lykilatriði til þess að efla atvinnulífið og bæta hag heimilanna. Þessi stefna fer vel saman við skýran vilja sjálfstæðismanna að hlúa vel að þeim sem eldri eru.

Tryggja ber eldri borgurum val um búsetu eftir vilja og þörfum hvers og eins. Gera verður eldri borgurum mögulegt að eiga sjálfstætt líf á eigin heimili sem lengst og tryggja þarf aðgengi að þeirri þjónustu sem þörf er á. Þau sem mótuðu samfélagið eiga að fá að njóta þess þegar þau hafa hætt störfum og byrja að njóta lífsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bjóða verður upp á fjölbreytt rekstrarform, í rekstri heilsugæslunnar, í heimaþjónustu og á dvalarheimilum/hjúkrunarheimilum sem byggja á þjónustusamningum við hið opinbera. Saman geta þessir þættir myndað öfluga heild í hverju héraði sem mun auka atvinnutækifæri og þjónustu, íbúum landsbyggðarinnar til heilla.

Afnema þarf þær tekjutengingar og skerðingar sem núverandi ríkisstjórn setti á 1. júlí 2009. Eldri borgarar eiga að geta fengið greitt úr lífeyrissjóði án þess að greiðslur þeirra frá Tryggingstofnun skerðist, hafa frelsi til að ráðstafa eignum sínum og vinna fyrir sér meðan þrek leyfir.

Rétt forgangsröðun er það sem þarf sem samfara eflingu atvinnulífsins og nýjum leiðum í rekstri ríkisins mun auka lífsgæði okkar allra. Tillögur okkar sjálfstæðismanna ganga út á að um leið og öllum verði tryggðar lágmarkstekjur til lífsviðurværis þess verði gætt, að ekki sé dregið út hvatanum til sjálfsbjargar og möguleikum aldraðra og öryrkja til að bæta kjör sín. Það er frumréttur einstaklingsins sem ekki má ganga gegn.

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins munu leggja sig fram við að bæta hag aldraða og öryrkja ásamt því að efla landsbyggðina.

Vilhjálmur Árnason.
Höfundur skipar 4. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.