Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Bættur orkuflutningur ein forsenda atvinnuuppbyggingar
Föstudagur 2. október 2009 kl. 10:03

Bættur orkuflutningur ein forsenda atvinnuuppbyggingar

Á vef Víkurfrétta birtist þann 1. október grein eftir oddvita Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi þar sem farið er með dylgjur og ósannindi á borð við að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sé á móti nýtingu orku til atvinnuuppbyggingar í landinu. Tilefni þessarar ályktunar virðist vera ákvörðun umhverfisráðherra vegna Suðvesturlína og tengslin við álverið í Helguvík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Staðreyndin er sú að Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna leggur ríka áherslu á atvinnumál í stjórnarsáttmála sínum. Sem dæmi um þær áherslur er að ríkisstjórnin lagði í sumar hornstein að endurreisn efnahagslífsins með stöðuleikasáttmála ríkistjórnarinnar, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga. Ríkisstjórnin er varla á móti sínum eigin stjórnarsáttmála eða stöðuleikasáttmálanum en þar er m.a. fjallað um álverið í Helguvík og fleiri iðnaðarkosti.


Orðrétt segir í stöðumálasáttmálanum:
„Ríkisstjórnin mun greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda sbr. þjóðhagsáætlun, s.s. framkvæmda vegna álvers í Helguvík og Straumsvík. Undirbúningsvinnu verði hraðað vegna áforma sem tengjast fjárfestingu í meðalstórum iðnaðarkostum, s.s. gagnaverum og kísilflöguframleiðslu. Kappkostað verður að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember.“


Alvarlegasta afleiðing kreppunnar er hið mikla atvinnuleysi og hvergi er það eins mikið og á Suðurnesjum. Nú eru hér um 900 karlar og 700 konur atvinnulaus. Styrking atvinnulífs og fjölgun atvinnutækifæra er lífsnauðsyn á Suðurnesjum eins og reyndar á landinu öllu við þær aðstæður sem ríkja. Allt frá sveitarstjórnarkosningum árið 2006 hef ég unnið að framgangi álversframkvæmda í Helguvík og þekki þar vel til. Ég hef stutt það verkefni einkum vegna þeirra fjölda atvinnutækifæra sem því fylgja. Stuðningur annarra Samfylkingarmanna er einnig ótvíræður við atvinnuuppbygginguna og má í því sambandi rifja upp að oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi Björgvin Sigurðsson var einn þeirra sem tók skóflustungu álversins í Helguvík. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Samfylkingarkona vann að fjárfestingasamningi við Norðurál, fyrst sem formaður iðnaðarnefndar Alþingis og staðfesti hann síðan sem iðnaðarráðherra.


Umhverfisráðherra hefur nú ,vegna formgalla, talið nauðsynlegt að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlína og öðrum tengdum framkvæmdum. Getgátur eru uppi um að þetta hafi í för með sér úrskurð um að fara skuli með framkvæmdirnar í sameiginlegt mat. Þetta er rangt. Það er ljóst að sameiginlegt mat á þessum framkvæmdum er ekki gerlegt vegna þess að óvissa er um hvaða framkvæmdir eru tengdar orkuöflun og orkuflutningi til Helguvíkur. Vissulega eru Suðvesturlínur nauðsynlegar fyrir álverið í Helguvík en þær eru einnig nauðsynlegar til að styrkja allan orkuflutning til og frá Suðurnesjum og þannig alla almenna uppbyggingu á svæðinu. Núverandi orkuflutningskerfi er óöruggt og mikið orkutap á sér stað eftir Suðurnesjalínum. Ákvörðun umhverfisráðherra gæti tafið framkvæmdir við Suðvesturlínur um tvo til þrjá mánuði samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun og það er vissulega slæmt. Því ber að leggja áherslu á að úr meintum formgöllum verði bætt hratt og vel.


Það er ábyrgðarhluti og reyndar grafalvarlegt mál ef alþingismenn haga orðum sínum þannig að þeir gefi þá tilfinningu að við þessa ákvörðun umhverfisráðherra og stefnu ríkisstjórnarinnar sé aðeins dauðinn og djöfullinn framundan á Suðurnesjum. Sá einn virðist vera tilgangur greinar oddvita sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem birt var á vef Víkurfrétta. Með slíkum málflutningi er verið að auka að óþörfu á vanlíðan þeirra sem atvinnulausir eru og tortryggni þeirra fyrirtækja sem munu treysta rekstrargrunn sinn með beinum eða óbeinum hætti þegar álversframkvæmdir fara af stað af fullum krafti í Helguvík og aðrar framkvæmdir verða að veruleika. Þegar unnið er að endurreisn samfélagsins og uppbyggingu atvinnulífs við núverandi aðstæður er allar tafir slæmar. En ekki er síður slæmt þegar vísvitandi er reynt að draga kraft og þrótt úr almenningi í þeim tilgangi einum að fá pólitískar fellur. Lágmarkskrafa til alþingingismanna hlýtur að vera sú að þeir tali af ábyrgð en fari ekki með staðlausa stafi.

Oddný G. Harðardóttir
alþingismaður.