Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 6. janúar 2005 kl. 15:54

Bætt vínmenning kallar á betri þjónustu

Með breyttri vínmenningu á Íslandi er það orðið svo að léttvín og bjór er nú hluti af neysluvenjum velflestra heimila. Með hóflegri neyslu en áður tíðkaðist líkist þessi hluti okkar samfélags æ meir því sem gengur og gerist í Evrópu sem hlýtur að vera breyting til hins góða. Ríkulegt framboð og góð þjónusta vínbúða er því mikilvægari þáttur en áður var.

Fyrir áramót opnaði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins nýja vínbúð í Reykjanesbæ. Búðin er staðsett við aðalverslunargötu bæjarins og þykir sú staðsetning betri og útlit nýju verslunarinnar hlýlegra. Sá böggull fylgir skammrifi að nýja verslunin er talsvert minni en sú gamla, við hana eru færri bílastæði og vörutegundum hefur sennilega fækkað. Auk þessa er lagerhúsnæði verslunarinnar augljóslega svo lítið að mjög hefur brunnið við að vinsælar tegundir léttvína og bjórs séu uppseldar. Á annatíma standa viðskiptavinir í biðröðum í snjókomunni, örtröð bíla myndast á fjölförnustu götu bæjarins og erfitt er að komast að hillum verslunarinnar vegna biðraða við afgreiðslukassa.

Sveitarfélagið er að missa spón úr aski sínum
Undanfarið hefur Reykjanesbær lagt á það mikla áherslu að kynna sig sem samkeppnishæft sveitarfélag með samskonar þjónustustig og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Vegna einokunar á þessum markaði þurfa Reykjanesbæingar að leita út fyrir sveitarfélagið eftir betri þjónustu og frekara vöruframboði. Samkeppnishæfni Reykjanesbæjar skaðast því klárlega við minnkandi þjónustustig vínbúðarinnar.

Það viðurkennist að þetta er ekki stórt mál, samanborið við aðra mikilvægari málaflokka, en allt þjónustustig skiptir máli. Ég skora því á kjörna bæjarfulltrúa okkar að beita sér í málinu og krefjast þess að þjónustustig vínbúðarinnar verði bætt og verslunin flutt í stærra og hentugra húsnæði.

Georg Brynjarsson
f.v. formaður Heimis,
félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024