Bætt þjónusta HSS með tilkomu Veru
Íbúar á Suðurnesjum geta héðan í frá átt samskipti við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í gegnum heilsuvefinn Veru þar sem hægt verður að senda inn beiðnir um endurnýjun á lyfseðlum og, frá og með næstu viku, pantað viðtöl hjá heilsugæslulæknum á HSS. Fjöldi vefbókanlegra tíma verður takmarkaður fyrst um sinn á meðan eftirspurnin er metin.
Vera, sem finna má á vefslóðinni www.heilsuvera.is, er örugg samskiptagátt sem þróuð er af TM-Software, í samstarfi við Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þjónustan hefur nú þegar verið innleidd á nokkrum heilsugæslustöðum á höfuðborgarsvæðinu.
Einstaklingar fá aðgang að Veru með rafrænum skilríkjum og þar er meðal annars mögulegt að bóka tíma, óska eftir endurnýjun á lyfseðli, skoða óútleysta lyfseðla og lyfseðla sem viðkomandi hefur leist út síðustu þrjú ár ásamt því að skoða helstu atriði úr eigin sjúkraskrá, t.d. bólusetningar. Einnig hafa foreldrar aðgang að gögnum barna sinna allt að 15 ára aldri.
Heilsuvera.is fór í loftið á síðasta ári og var á dögunum valinn besti íslenski vefurinn árið 2014.