Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Bærinn okkar
    Frá Hafnargötunni.
  • Bærinn okkar
    Steinþór Jónsson
Þriðjudagur 15. apríl 2014 kl. 14:17

Bærinn okkar

– Steinþór Jónsson skrifar

Miðað við fjölmiðlaumræðu og tal í sumum spjallþáttum virðast ekki allir í 101 Reykjavík gera sér grein fyrir hversu gott er að búa í Reykjanesbæ. Þá síður gera sér grein fyrir að okkar ákvörðun um búsetu er ekki síðri en þeirra. Allavega hef ég persónulega ekki mikinn áhuga á að búa með mína fjölskyldu í miðborg Reykjavíkur eða í höfuðborginni sjálfri yfir höfuð.
 
Á síðustu árum hefur margt verið gert til að bærinn okkar uppfylli kröfur okkar um það sem skiptir máli. Má þar nefna uppbyggingu skóla og skólastarfs en frábær árangur hefur náðst í skólum sveitarfélagsins á síðustu árum. Skólarnir eru jafnframt meðal fremstu skóla landsins við nýtingu tölvutækni í kennsluháttum. Uppbygging svæðis fyrir eldri borgara með öryggisíbúðum, þjónustumiðstöð og hjúkrunarheimili í hjarta bæjarins, opnun Hljómahallar með Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Rokksafn Íslands í forgrunni, fegrun opinna svæða og svo mætti áfram telja. 
 
Eitt af mínum áhugamálum hafa alltaf verið umhverfismál og lagði ég mitt m.a. á vogaskálina sem formaður Umhverfis- og skipulagssviðs á uppbyggingu Hafnargötunar, hugmyndavinnu vegna Strandleiðarinnar, tjörn við Fitjar, falleg hringtorg við aðalgötur og svo mætti lengi telja. Reyndi meira að segja einu sinni að fá samþykki fyrir bæjarlæk niður Hafnargötuna en náði ekki stuðningi í það skiptið. Að auki hef ég reynt að bæta útlit minna fyrirtækja í gegnum tíðina og stend nú í framkvæmdum við Hótel Keflavík en vonir standa til að klára þær endanlega fyrir júni byrjun. Allar svona framkvæmdir kalla á fjármagn en margt má þó gera án þess að þær tölur séu óyfirstíganlegar s.s. með nýjum hugmyndum, málningu og snyrtimennsku sem kostar ekki neitt.
 
Þá tel ég að uppbygging við Krossmóa hafi tekist einstaklega vel og ástæða til að óska hlutaðeigandi til hamingju með vel unnið verk, fallegt húsnæði og snyrtilegt umhverfi. Þá hefur bærinn gert stórvirki í umferðarmannvirkjum þar í kring og er þjóðbrautin með sínum hringtorgum glæsilegur afrakstur þeirra vinnu.
 
En nú er aftur kominn tími á miðbæinn í Keflavík. Endurvekja þarf  samtökin Betri Bæ og hvetja alla verslunareigendur í miðbæ til að taka höndum saman um sameiginleg verkefni ásamt bæjaryfirvöldum. Verkefnin sem við þurfum að klára nú þegar í vor eru:
 
Fá bæjaryfirvöld til lagfæra gangstéttir og malbik þar sem nýjar skemmdir hafa komið fram.
 
Að lista upp eigendur allra íbúðar- og verslunarhúsa sem standa við Hafnargötuna og tengdra gatna til að tengja hagsmunaaðila saman.
 
Gera þrívíddar teikningu af Hafnargötunni og götum þar í kring. Setja inn nýja liti, þakkanta, samræmdar merkingar o.s.frv.
 
Fá fjármálastofnanir bæjarins til að lagfæra útlit sinna eigna ekki síðar en strax og koma með fjármagn í heildarverkefni sem eykur verðmat húsnæðis til muna.
 
Nú er tími til góðra verka. Stöndum saman hvar í flokki sem við erum og látum verkin tala. X fyrir miðbæinn okkar.
 
Steinþór Jónsson,
Hótelstjóri á Hótel Keflavík.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024