Bær eða borg?
Nú er umræða um sameiningu sveitarfélaga að komast í gang að nýjan leik sem betur fer fyrir okkur Suðurnesjamenn, því ég lít á mig sem Suðurnesjamann og tel deilur um skipulagsmál og rekstrarmál og fl. eigi að vera innansveitarmál þannig að þau leysist en ekki að aðilar geti skapað hálfgert stríðsástand milli byggða. Sameining sveitarfélaga og sameining íþróttafélaga snúast um tilfinningar á endanum.
Ég tel mig eins mikinn Suðurnesjamann og hver annar Ég er fæddur og uppalinn Sandgerðingur‚ á tvö yngri systkini en þau eru alin upp að hluta í Keflavík og hafa talið sig Keflvíkinga. Bróðir minn býr í Vogum og vinnur á Vellinum. Systir mín býr og starfa í Grindavík og á nokkra Grindvíkinga. Börnin mín eru Keflvíkingar og konan mín er Njarðvíkingur úr Grænási. Við kynntumst í Svartsengi og giftum okkur í Innri Njarðvík og búum á Fitjum. Föðurfólkið mitt er ættað að hluta úr Garðinum og er margt jarðað þar og Dimma úr bók Jóns Thorarensen „Litla skinnið“ konan sem „stútaði sig“ þ.e. tók í nefið beint úr stauk var langalangamma mín og var ráðskona í Höfnum og maður hennar sjómaður þar. Svona sögu geta margir Suðurnesjamenn sagt því það er staðsetningin og sagan sem sameinar okkur.
Keflavík íþrótta-og ungmennafélag
Á síðasta áratug síðustu aldar þá vorum við tvenn hjón, þ.e. ég og Lóa og Kári og Kolla komin í ákveðið þægindamunstur og við hittumst öll sunnudagskvöld og spiluðum saman. Svo gerðist það eitt kvöld að konurnar tilkynntu okkur að þær ætluðu í háskólanám og við Kári ákváðum þá að gera eitthvað skemmtilegt og annað var að læra bridge og hitt var að taka að okkur að stjórna KFK (Knattspyrnufélagi Keflavíkur) því við erum báðir miklir áhugamenn um íþróttir. Þegar við komum að borði þá hafði sameining íþróttafélaga í Keflavík verið reynd en ekki tekist. Við ákváðum að láta reyna á sameiningu aftur.
Í minningunni þá settumst við niður fyrst fjögur, við frá KFK og Einar H. og Gísli J. frá Ungó (Ungmennafélagi Keflavíkur). Fleiri komu að síðar. Við ákváðum að vernda söguna og í stað þess að stofna nýtt félag, að sameinast. Ströglið stóð um nafnið því saga Ungó var elst en við KFK-arar vildum ekki renna inn í Ungó. Við breyttum orðinu knattspyrnufélag í íþróttafélag og minnkuðum svo stafina og eins minnkuðum við stafina í ungmennafélag og svo stækkuðum við stafina í KEFLAVíK. KEFLAVÍK - íþrótta og ungmennafélag. Þetta snerist um það sem sameinar okkur og það var KEFLAVÍK.
Nú eru allir Keflvíkingar afar stoltir af sínu félagi og ég held að okkur Kára hafi verið fyrirgefið af þeim KFK félögum sem söfnuðu liði til að reyna að stöðva að félagið yrði hluti af Ungó ,ég held að það standi upp úr hjá öllum að félagið okkar KEFLAVÍK.
Til gamans má geta þess að á sameiningardeginum þá fengum við gjöf merkta UÍK en það voru allir sammála um að félagið fengi ekki á sig skammstöfun því það héti KEFLAVÍK.
Suðurnesjabær
SUÐURNESJABÆR er næsta skref. Við erum Suðurnesjamenn og eigum að sameinast í einum friðsælum bæ, SUÐURNESJABÆ.
Sandgerðingar, Garðbúar, Keflvíkingar, Njarðvíkingar, Hafnabúar, Vogabúar og Grindvíkingar. Við getum öll sameinast í einum bæ.
Stríðsástandi milli byggða verður að linna við verðum að líta á okkur sem eina heild. Við búum á sama svæði og það sem snertir annan snertir hinn líka.
Hvernig haldið þið að ástandið væri með Völlinn eða Helguvík ef sameining Keflavíkur Njarðvíkur og Hafna hefði ekki komið til?
Hver væri staðan á Hitaveitu Suðurnesja ef SUÐURNESJABÆR væri til og er það nokkuð of seint.
Hver væri staða skipulagsmála? Ég held til dæmis að álver væri risið á Keilisnesi en ekki að rísa í Helguvík.
Ég hvet stjórnmálaöfl á Suðurnesjum að velja fólk til forystu fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar sem hugsar stærra en erjufólkið. Annar möguleiki er sá að stofna framboð í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum sem hefur það eitt stefnumál að sameina
byggðirnar á Suðurnesjum í Suðurnesjabæ, ég held að slík sameining sé og eigi að vera okkar val.
Reykjanesborg
Aðrir möguleikar á sameiningu eru líka til staðar og myndu skapa endanlegan frið á Reykjanesi en þá verða menn líka að vera tilbúnir að hugsa stærra og það er REYKJANESBORG og sú borg myndi ná yfir allt Reykjanes og í þeirri borg yrði auk Suðurnesjabyggða, Hafnafjörður. Okkar er valið
Samstarf með erjuívafi - Suðurnesjabær- Reykjanesborg
Hjalti Örn Ólason
Suðurnesjamaður og Reyknesingur