Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga fellur frá ákvörðun
- sinni um endurskoðun aðalskipulags.
Í september 2011 ákvað Bæjarstjórn Voga að ráðast í endurskoðun aðalskipulags með það að markmiði að fá jarðstreng í jörðu í stað tveggja 220kv lína. Skemmst er frá því að segja að lítið sem ekkert hefur mjakast með þetta mál. Þrátt fyrir rökfastan málflutning Bæjarstjórnar Voga.
Nú er svo komið að Hr Ólafur Ragnar hefur vígt háhitaborinn Þór. Jarðboranir og Þór eru að hefjast handa við sex varma borholur til gufuöflunar fyrir Reykjanesvirkjun. Þessar framkvæmdir, sem og fleiri, kalla á aukna afkastagetu dreifikerfisins. Einnig er orðin mikil þörf á endurbótum á kerfinu og meiri afköstum dreifikerfisins á Reykjanessvæðinu almennt.
Þannig er það skylda bæjarfulltrúa að taka fyrri ákvörðun til endurskoðunar og ganga til samninga aftur við Landsnet á þeim forsendum sem Landsneti eru færar. Nú liggja fyrir drög að slíku samkomulagi sem styttir samninginn um 25% eða í 15 ár. Einnig verður sett á laggirnar samstarfsnefnd samkvæmt 4. gr samkomulagsins sem verði m.a til ráðgjafar um leiðir skv. 1. gr. samkomulagsins og útlit mastra.
Þannig varð til eftirfarandi breytingartillaga og drög að samkomulagi við Landsnet. Sem samþykkt voru á bæjarstjórnarfundi Sveitarfélagsins Voga 28.11.2012:
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga samþykkir að falla frá fyrri ákvörðun sinni um endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins sem tekin var á 65. fundi bæjarstjórnar 28. september 2011, og að núverandi aðalskipulag standi óbreytt. Bæjarstjórn samþykkir jafnframt að samkomulag Landsnets hf. og Sveitarfélagsins Voga undirritað 17. október 2008 sé áfram í gildi, þó með þeim breytingum að ákvæði 3.gr. samkomulagsins breytist á þá lund að eftir að Suðurnesjalína 2, sem nú er í framkvæmdaundirbúningi, verður tekin í notkun eru aðilar sammála um að endurskoðun á forsendum sem getið er um í 2.gr. samkomulagsins geti farið fram 15 árum síðar (og nái bæði og sameiginlega til Suðurnesjalínu 1 og 2). Bæjarstjórn samþykkir jafnframt að samstarfsnefnd samkvæmt 4.gr. samkomulagsins taki til starfa nú þegar og verði m.a. til ráðgjafar um leiðir skv. 1. gr. samkomulagsins ef tilefni gefst til. Bæjarstjórn samþykkir jafnframt framkomið tilboð Landsnets hf. um bætur vegna línustæðis Suðurnesjalínu 1 og 2 í landi Suðurkots neðra, sbr. erindi Lögmanna hf. dags.1. nóvember 2012.
Rétt er að taka fram að þessi tillaga verður ekki til meirihlutaslita og að enginn bæjarstjóri missir vinnu sína við þessa breytingu.
Kær Kveðja
Oddur Ragnar Þórðarson
bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Vogum