Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 31. janúar 2002 kl. 09:25

Bæjarstjórn og pólitík

Í Kastljósþætti nýverið sagði Árni Sigfússon bæjarstjóraefni þeirra sjálfstæðismanna eitthvað á þessa leið að menn væru svo sem ekkert að ræða gatnagerð á landsfundum þeirra sjálfstæðismanna. Þetta var svar við þeirri spurningu fréttamannsins hvort sveitarstjórnarmál væru í eðli sínu pólitísk. Þessi skoðun Árna, að sveitarstjórnarmál séu í eðli sínu ópólitísk, er ekki eingöngu skoðun hans sjálfs, heldur hafa margir orðið til þess að taka undir hana. Í umræðum síðustu vikna hafa margir haldið því fram að barátta í sveitarstjórnum snúist fyrst og fremst um hina sterku einstaklinga, málefnin komi þar á eftir.
Íslenska orðið stjórnmál sem er þýðing á orðinu pólitík hefur verið útlagt skv. orðabók sem þjóðmál, ríkismálefni, hvers kyns málefni sem varða rekstur og starfsemi þjóðfélagsins, einkum það sem ekki er ákveðið með lögum og reglugerðum.
Þjóðmál hvers konar, hvort sem um þau er fjallað á stigi sveitarstjórna, eða á öðrum vettvangi, hljóta því skv. ofangreindri skýringu, að vera pólitísk. Hugsjónir og þær hugmyndir, sem við höfum um lífið og tilveruna, hljóta fyrst og síðast að stjórna því hvaða ákvarðanir við tökum. Þetta snýst um forgangsröðun og ekki um tæknilegar útfærslur eingöngu.
Hvernig viljum við sjá okkar nánasta umhverfi þróast, hvernig viljum að aðbúnaður bæjarbúa sé og hvaða öryggi veitir sveitarfélagið okkur bæjarbúum?
Svona vangaveltur eru að mínu viti hápólitískar og svarið við þeim hlýtur að mótast af pólitískri sýn þess sem um þær fjallar.
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í prófkjöri Samfylkingarinnar og leita eftir stuðningi bæjarbúa í eitt af efstu sætum listans. Ég er jafnaðarmaður og ég vona að sú hugmyndafræði fylgi mér í bæjarstjórn ef til þess kemur. Þó að gatnagerð sé ekki til umjöllunar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, þá skiptir hún okkur máli. Það er ekkert til sem heitir ópólitík og þess vegna á hún ekki heima í bæjarstjórn

Guðbrandur Einarsson
varabæjarfulltrúi
Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024