Bæjarstjórn á skólabekk
Guðmundur Skúlason skrifar.
Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, árið 2010 var B-listinn og óháðir eina framboðið í Sandgerði sem benti á slæma skuldastöðu bæjarins. Þegar núverandi meirihluti S-lista settist í bæjarstjórnarstólana 2010 virtust þau ekki hafa hugmynd um þessa slæmu stöðu og það sást best á því að þegar þau réðu bæjarstjóra, höfðu þau ekki fyrir því að kynna honum slæma stöðu bæjarins. Það var ekki fyrr en Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna boðaði bæjarstjórn á fund og kynnti skuldastöðu Sandgerðisbæjar fyrir bæjarfulltrúum að hlutirnir fóru að gerast.
Eftirlitsnefndin fer í málið
Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar gerði þann 1. nóvember 2011 samning við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga um skoðun á fjárhag sveitarfélagsins og möguleikum þess til hagræðingar í rekstri. Í framhaldi var gerður samningur við innanríkisráðherra þann 12. júní 2012 um fjárhagslegar aðgerðir og eftirlit á grundvelli 83. gr. laga nr. 138/2011.
Bæjarsjóður í gjörgæslu
Eftirlitsnefndin kom með tillögu um að ráðinn yrði sérstakur ráðgjafi sem myndi skila tillögum að bættum rekstri og fjárhagslegri endurskipulagningu Sandgerðisbæjar því staðan var það grafalvarleg að ella myndi bærinn missa fjárráðin í hendur nefndarinnar. Til verksins var fenginn Haraldur Líndal Haraldsson. Segja má að bæjarstjórn Sandgerðisbæjar hafi sest á skólabekk með Haraldi og eftirlitsnefndinni því nánast allar tillögur í skýrslu Haraldar voru samþykktar af bæjarstjórn. Enda ekki annað hægt þegar nefndin og Haraldur voru búnir að benda á slæman rekstur og að Sandgerðisbær gæti með engu móti staðið við skuldbindingar sínar til framtíðar og yrði settur í gjörgæslu ef ekkert yrði að gert.
Góður árangur
Núna árið 2014 erum við bæjarbúar loksins farnir að sjá árangur af erfiði okkar sl. 4 ár og ársreikningur sýnir svart á hvítu þann góða viðsnúning sem orðið hefur á rekstri Sandgerðisbæjar á því kjörtímabili sem nú er að ljúka.
Ég vil nota tækifærið og þakka öllum kjörnum fulltrúum sem störfuðu með mér í bæjarstjórn á kjörtímabilinu fyrir samstarfið. Ekki síst vil ég þakka Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og Haraldi Líndal Haraldssyni fyrir að opna augu meirihlutans og benda á þá slæmu stöðu sem Sandgerðisbær var kominn í. Vonandi þurfum við ekki á slíkum ráðleggingum að halda í framtíðinni.
Guðmundur Skúlason, bæjarfulltrúi
og skipar 1. sæti á lista Framsóknar og óháðra í Sandgerðisbæ.