Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Bæjarstjórinn margfaldi
Föstudagur 13. nóvember 2009 kl. 13:51

Bæjarstjórinn margfaldi


Hafi Ólafur Thordersen bæjarfulltrúi A listans verið að senda tvöföld skilaboð með greinaskrifum sínum í síðustu viku, tókst bæjarstjóra Reykjanesbæjar að senda frá sér margföld skilaboð með grein sinni í Morgunblaðinu sl. laugardag. Tilefni skrifa Ólafs voru að Reykjanesbær hefur borist erindi frá Eftirlitsnefnd sveitarfélaga þar sem óskað er skýringa á hallarekstri og skuldastöðu sveitarfélagsins.  Það eina sem Ólafur gerði í greinaskrifum sínum var að vísa til þessa bréfs nefndarinnar sem metur skuldastöðu með því að leggja saman skuldir og skuldbindingar. 

Sveitarfélögum er heimilt að halda skuldbindingum sem verða til vegna húsaleigu utan efnahagsreiknings. Aðeins þurfi að geta um slíkar skuldbindingar í skýringum með efnahagsreikningi. En þessi aðferð hentar bæjarstjóranum margfalda í samanburðinum við önnur sveitarfélag. Þau sveitarfélög sem byggja fyrir eigin reikning þurfa að færa lántökur vegna þess í bækur sínar en Reykjanesbær sem byggir í gegnum félag út í bæ gerir það ekki og því er í raun ekki nægjanlegt að bera bara saman efnahagsreikninga þegar meta á stöðu þeirra. Húsaleiguskuldbindingar Reykjanesbæjar voru skv. síðasta ársreikningi rúmir 12 milljarðar eða u.þ.b. 860 þúsund á mann. Inn í þá tölu á eftir að reikna afleiðingar hrunsins að stórum hluta þ.e gengisfall krónunnar ásamt aukinni verðbólgu en rúmur helmingur húsleigugreiðslna er gengistryggður eða 55% og hinn hlutinn er verðtryggður. Ekki er heldur búið að reikna inn í þetta skuldbindingu vegna Hljómahallarinnar en kostnaður við byggingu hennar nemur nú á þriðja milljarð króna. Það er því ljóst að staðan er miklu verri en Eftirlitsnefndin tilgreinir í bréfi sínu. Í tveimur undirflokkum í greinar sinnar gerir bæjarstjórinn margfaldi lítið úr framsetningu Ólafs og segir hann tvöfalda skuldir sveitarfélagsins. Skoðum þetta aðeins.

Greiðslur sem skila auknu virði?


Bæjarstjórinn segir Ólaf tvöfalda skuldir þegar hann leggur saman greiðslur til fyrirtækja í eigu sveitarfélagsins eins og hann orðar það í grein sinni. Bæjarstjórinn segir að “hann á að vita að leigugreiðslur standa undir að greiða fjárfestingu sem eykur virði okkar í félaginu” Hvaða röksemdafærsla er þetta nú eiginlega? Það sama hlýtur þá að gilda um skuldir sem hvíla á sveitarfélaginu sjálfu. Því meira sem við borgum upp í skuld því hærri verður höfuðstóll okkar. Megum við sem sagt sleppa því að bókfæra skuldir sem við ætlum að greiða niður. Eru þá ekki öll sveitarfélög skuldlaus skv. þessari túlkun bæjarstjórans? Hvar lærði hann þessa hagfræði? Er nema von að illa gangi. 

 
Tölur beint úr Árbók sambands íslenskra sveitarfélaga?

Bæjarstjórinn þykist aldeilis hafa náð vopnum sínum þegar hann les það út úr Árbók sveitarfélaga 2008 að Reykjanesbær skuldi aðeins 1,3 milljónir á mann en meðaltal annarra sveitarfélaga er 1,5 milljón. Árbókin er þannig unnin að þar eru birtir rekstrar- og efnahagsreikningar sveitarfélaganna. Þar inni eru ekki húsaleiguskuldbindingar en bæjarstjórinn margfaldi er ekkert að benda á það. Þegar eftirlitsnefndin skoðar rekstur sveitarfélaganna skiptir það engu hvort um sé að ræða skuld eða skuldbindingu. Hvort tveggja þarf að greiða. Ekkert annað sveitarfélag sem er með jafn mikið af húsaleiguskuldbindingum utan efnahagsreiknings og Reykjanesbær. Því hentar það bæjarstjóranum ágætlega að nota bara tölurnar beint úr Árbókinni en ekki aðferðina sem eftirlitsnefndin viðhefur. Ef að þessar tölur sem hann birtir í grein sinni eru réttar, þá á talan úr Reykjanesbæ að viðbættum húsaleiguskuldbindingum frá 2008 að vera 2,2 milljónir á móti 1,5 að meðaltali. Íbúar í Reykjanesbæ skulda því 50% meira en íbúar annara sveitarfélaga að jafnaði. Það er sú tala sem fæst þegar aðferðin sem Eftirlitsnefndin viðhefur. Þessi aðferð er ekki eitthvað sem bæjarfulltrúinn Ólafur Thordersen fann upp, heldur aðferð lögskipaðrar nefndar hvers hlutverk er að fylgjast með því að rekstur sveitarfélaga á Íslandi sé í lagi og bregðast við þegar rekstur þeirra er komin á ystu brún. Og á þeirri brún er Reykjanesbær nú staddur.

Villurök

Það var í sjálfu sér fyrirséð að bæjarstjórinn margfaldi myndi bregðast við með þessum hætti. Nú er hann kominn út á berangur með allt í rugli og eina leiðin til þess breiða yfir skelfilegan árangur í rekstri sveitarfélagsins að grípa til villuraka. Ein ástæða hallareksturs segir bæjarstjóri vera þá að sjálfstæðismenn hafi verið svo fyrirhyggjusamir að grípa til útgjaldaauka til þess að forða atvinnuleysi. Því er til að svara að það sem mest fór úrskeiðis í rekstri sveitarfélagsins á síðasta ári var að tekjur vegna offjárfestinga í byggingarlóðum brugðust. En þarna er bara um að ræða árið 2008. Bæjarstjórinn ætti hins vegar að skýra það út fyrir íbúum Reykjanesbæjar hvers vegna sveitarfélagið hefur nánast undantekningarlaust verið rekið með halla frá því að hann tók við stjórnartaumunum árið 2002. Allan góðæristímann var Reykjanesbær rekinn með halla. Ætli ástæðan fyrir bréfaskriftum eftirlitsnefndarinnar sé ekki sú að gríman er fallin.


Guðbrandur Einarsson
oddviti A listans í
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024