Bæjarmálafélag Sandgerðislistans stofnað
Í gær var bæjarmálafélag Sandgerðislistans formlega stofnað á veitingastaðnum Mamma Mía í Sandgerði. Í framkvæmdastjórn bæjarmálafélagsins voru kosin Hallbjörn V. Rúnarsson formaður, Thelma Björk Jóhannesdóttir ritari og gjaldkeri var kosin Linda Björk Holm. Á fundinum í gær var nýkjörinni stjórn falið að móta lög félagsins og að koma með drög að þeim á fyrsta aðalfundi sem haldinn verður eigi síðan en 1. nóvember. Stjórninni var einnig falið að láta hanna merki félagsins með listabókstafnum Þ. Á fundinum var rætt um samstarf bæjarfulltrúa Framsóknarflokks og Sandgerðislistans í minnihluta bæjarstjórnar og lýsti fundurinn yfir ánægju sinni með það samstarf.
Undirbúningur að stofnun bæjarmálafélagsins hefur staðið yfir í nokkurn tíma og segir í fundargerð stofnfundarins að þeir frambjóðendur sem áttu sæti á Sandgerðislistanum fyrir síðustu kosningar hafi verið staðráðnir í að stofna bæjarmálafélag listans og að hann væri ekki „einhver bóla sem myndi síðan hverfa,“ eins og segir í fundargerð. Ólafur Þór Ólafsson er bæjarfulltrúi Sandgerðislistans í bæjarstjórn Sandgerðisbæjar.
Ljósmynd: Mats Wibe Lund.