Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Bæjarfulltrúinn og framkvæmdastjórinn
Föstudagur 25. nóvember 2011 kl. 17:23

Bæjarfulltrúinn og framkvæmdastjórinn

Eftir Ragnheiði Elínu Árnadóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

Í aðsendri grein á vf.is í dag furðar Eysteinn Eyjólfsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ og framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar, sig á því að enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi verið viðstaddur lokaatkvæðagreiðslu fjáraukalagafrumvarpsins fimmtudaginn 17. nóvember sl. Bæjarfulltrúinn hefði kannski átt að spyrja framkvæmdastjóra þingflokksins að því hvað átti sér stað á þinginu þann daginn áður en hann tók sér penna í hönd og opinberaði yfirgripsmikið þekkingarleysi sitt.

Þá hefði hann komist að því að stjórnarandstaðan í heild sinni, utan tveggja þingmanna Framsóknarflokksins, var ekki viðstödd nefnda atkvæðagreiðslu. Hann hefði líka komist að því að ástæðan fyrir fjarveru þingmannanna var að stjórnarandstöðunni ofbauð það vinnulag sem ríkisstjórnin viðhafði við afgreiðslu frumvarpsins, þar sem þingmönnum var gert að taka afstöðu til tugmilljarða króna útgjalda ríkissjóðs án þess að hafa til þess nokkrar forsendur. Gerðar höfðu verið ítrekaðar athugasemdir af hálfu stjórnarandstöðunnar, gagna krafist t.d. varðandi samninga um einkavæðingu fjármálaráðherra á BYR og SP Kef – en þeim athugasemdum og kröfum var ekki sinnt. Þessu var stjórnarandstaðan að mótmæla og ábyrgðin á fjáraukalögunum því alfarið ríkisstjórnarinnar.

Varðandi umrædda atkvæðagreiðslu um landakaup ríkisins sem bæjarfulltrúinn gerir að umtalsefni í grein sinni get ég upplýst hann um það – sem hann reyndar ætti að vita – að ég tók þátt í henni. Sú atkvæðagreiðsla átti sér nefnilega stað eftir 2. umræðu um frumvarpið og mér er ljúft og skylt að upplýsa bæjarfulltrúann um það að ég studdi þá sölu með atkvæði mínu, svo gerði einnig Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Mér þykir reyndar merkilegt að bæjarfulltrúinn skuli yfirhöfuð hætta sér út í það að ranglega ætla þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi að þeir vinni ekki að hagsmunum Suðurnesja þegar hann vinnur einnig sem framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar og tekur því beint og óbeint þátt í stöðugri grímulausri aðför ríkistjórnarinnar að hagsmunum Suðurnesja. Tíma hans væri betur varið í að berjast við samherja sína í ríkisstjórn t.d. um vanhugsaða og stórhættulega kolefnisskatta sem koma munu í veg fyrir nauðsynlega og langþráða atvinnuuppbyggingu í kísilvinnslu í Helguvík, verði þeir að veruleika.

Það er jú mikilvægt fyrir fjárhag Reykjanesbæjar – og annarra sveitarfélaga á svæðinu – að þau atvinnutækifæri sem í farvatninu eru verði að veruleika. Það væri óskandi að áhyggjur framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar af fjárhag Reykjanesbæjar væru þær sömu og bæjarfulltrúans. Þá væri kannski ríkisstjórn Samfylkingarinnar – flokks bæjarfulltrúans og framkvæmdastjóra þingflokksins – búin að vinna betur að atvinnuuppbyggingu á svæðinu með bæjaryfirvöldum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024