Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 17. janúar 2005 kl. 12:15

Bæjarfulltrúar sjálfstæðismanna sýndu pólitískan þroska

Það hefur lengi verið ríkjandi meðal stjórnmálamanna að þora ekki að skipta um skoðun og reyna frekar að standa við orðin tóm þrátt fyrir að samviskan vill stundum segja þeim annað. Auðvitað er það svo að í stjórnmálaþátttöku þarf að ná málamiðlunum og þá getur stjórnmálamaður lent í þeirri afstöðu að niðurstaða flokksins sé á aðra lund en honum finnst sjálfum og fylgir því oftar en ekki flokksaga.

Við höfum tvö nýleg dæmi þess að stjórnmálamenn hafa endurskoðað málefnin vegna andstöðu almennings. Ríkisstjórnin ákvað að hætta við fjölmiðlafrumvarpið og vinna málið betur í sátt við sem flesta hlutaðeigandi. Nýrra dæmi eru sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ. Breytingar voru kynntar á niðurgreiðslum vegna dagvistar barna í heimahúsum og afnám ferðastyrkja til námsmanna. Þessar breytingar féllu í grýtann farveg bæjarbúa og foreldrar mótmæltu harðlega, sem og Heimir, félag ungra sjálfstæðismanna með ályktunum sem stjórn félagsins sendi frá sér.

Að endurskoðuðu máli ákváðu sjálfstæðismenn að bakka með breytingarnar  á niðurgreiðslum og fá því allir hana eins og áður tíðkaðist, óháð tekjum og tekjuminnstu fjölskyldurnar geta leitað til félagsþjónustu Reykjanebæjar.  Hvað ferðastyrkin varðar fá þeir sem nýta sér almenningssamgöngur helmingsafslátt af hverri ferð. Mikill kostnaður hefur myndast við ferðastyrki námsmanna síðustu árin og erfitt var að fylgjast með því hvort nemandinn var virkilega að ferðast daglega á milli Reykjanesbæjar og höfuðborgarsvæðisins, eða hvort viðkomandi væri að leigja með lögheimili hér og nýtti sér samt þennann styrk.

Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn sýndu mikinn pólitískan þroska með að breyta fyrri ákvörðunum sínum og virtu lýðræðislegan rétt samborgaranna. Það eitt sýnir fram á vilja meirihlutans í verki að byggja hér upp fjölskylduvænt samfélag þar sem allir sem einn geta lagt sitt að mörkum í uppbyggingu Reykjanesbæjar til framtíðar. Meirihluti sjálfstæðismanna sýndi líka fram á það að þrátt fyrir hreinan meirihluta er hvorki valdhroka eða yfirgangi beitt sem hætta er oft á þegar stjórnmálaflokkar ná hreinum meirihluta.

Ég fagna ákvörðun meirihlutans, enda voru þessar aðgerðir sem boðað hafði verið til, engan veginn í takt við vinnubrögð hans hingað til og ég get stoltur tekið ofan fyrir þeim og  hvet þau til að eiga áframhaldandi gott samstarf við íbúa Reykjanesbæjar, því það er sameiginlegt verk okkar allra sem hér búa að skapa gott samfélag.

Árni Árnason
Formaður Heimis, FUS Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024