Aukum hlutdeild foreldra í skólastarfi barna sinna
Nanna Kristín Christiansen heldur erindið: “Hvernig á samstarf við foreldra samtímans að vera og hvers vegna?” í Njarðvíkurskóla þriðjudaginn 6.maí nk. kl. 14:30. Nanna gefur góð ráð og hagnýt dæmi í samstarfi við foreldra skólabarna. Hún mun segja frá þróunarstarfi á þessu sviði, og fjalla um stöðu fjölskyldunnar í samtímanum.
Gott samstarf foreldra og kennara leiðir alltaf til betra skólastarfs. Það stuðlar m.a. að jákvæðari viðhorfum foreldra, sem leiða til jákvæðari nemenda, betri vinnufriðar og bættum skilum á heimavinnu. Þetta hefur svo aftur jákvæð áhrif inn á heimilið og fjölskyldulífið. Kennarar og foreldrar eru sífellt að verða meðvitaðri um mikilvægi góðs samstarfs því það bætir hag barnsins, skólans og fjölskyldunnar til lengri tíma. Þó er það svo að flest börn verja miklum tíma í skólum þar sem foreldrarnir koma stopult, og þá í hlutverki gesta. Þátttaka margra foreldra í skólastarfi barnanna er óveruleg. Því er mikilvægt að finna leiðir til að auka hlutdeild foreldra í skólastarfi barna sinna. Þar gegna kennarar mikilvægu leiðtogahlutverki að mati Nönnu.
Nanna lauk M.Ed.-námi í uppeldis- og menntunarfræði frá Kennaraháskóla Íslands 2005 og fjallaði rannsókn hennar um faglegt hlutverk kennara í foreldrasamstarfi. Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta, einkum kennarar og foreldrar grunnskólabarna. Þáttaka er ókeypis en áhugasamir eru hvattir til að skrá sig á [email protected]
FFGÍR-Foreldrafélög og foreldraráð grunnskólanna í Reykjanesbæ