Aukinn fjöldi starfa á Keflavíkurflugvelli
Sú saga er nú látinn berast að hugsanleg aðild ESB komi til með að fækka störfum á Keflavíkurflugvelli. Slíkar staðhæfingar eru fjarri lagi og ekki í neinum tengslum við raunveruleikann. Það sýna dæmin og nægir þar að nefna til að mynda Kastrupflugvöll í Kaupmannahöfn og Vín í Austurríki ásamt tugum annara millilandaflugvalla um gervalla Evrópu.
Kröfur til alþjóðaflugvalla eins og Keflavíkurflugvallar verða stöðugt strangari og erfitt að sjá fyrir sér að í framtíðinni muni verða slakað á þeim kröfum. Óhætt er því að fullyrða hvað þann þátt varðar að þar verði ekki fækkað störfum, heldur þvert á móti.
Flugþjónustuþáttur starfseminar er einnig í föstum skorðum og starfsmannafjöldi þar ákvarðast af þeim farþegafjölda sem fer um völlinn á hverju ári, sem hefur aukist ár frá ári þó nú hafi um stundasakir sökum kreppunar dregið úr ferðalögum íslendinga um völlinn, en að sama skapi má reikna með að erlendum farþegum muni hér fjölga með rísandi sól. Þannig að allt tal um fækkun starfsmanna er ekki á rökum reist, heldur óskhyggju þeirra er vilja að hér fari allt á versta veg.
Lögæslan á Keflavíkurflugvelli er eins og glöggir menn vita hluti af varnarsvæði Evrópu enda flugvöllurinn hluti af Schengen samstarfi evrópu þjóða. Með inngöngu í Evrópusambandið mun þessi starfsemi eflast og styrkjast sem þýðir að sama skapi aukin störf.
Allt tal um annað er blekking og er hluti af hræðslu áróðri sjálfstæðismanna sem undir merkinu “frelsi einstaklingsins” settu allt undir einkavinavæðingu á Keflavíkurflugvelli, innan og utan svæðis sem nú hriktir í.
Í inngangi mínum hér á undan dreg ég fram tvo flugvelli sem eftir er tekið hvað varðar breytingar til góðs eftir að þær þjóði aðlöguðu sig að breyttum aðstæðum hvað varðar fríverslunarhlutann. Í Kaupmannahöfn hefur verslun aukist og starfsmönnum fjölgað í verslunarhluta flugvallarins, og í Vín er sömu sögu að segja og þar hefur verslun aukist talsvert sökum skipulagsbreytinga þar sem öllum sem á völlinn koma er gert kleift að versla í verslanakjarna flugstöðvarinnar.
Við skulum frekar vinna með samfélagi þjóðanna í Evrópu og auka gegnsæi og eftirlit og styrkja stoðir flugvallarins svo sómi sé að. Allt samstarf þjóðanna í Evrópu hefur þýtt aukinn starfsmannafjölda vegna sameiginlegra verkefna og svo mun verða áfram.
Með sumarkveðju
Björgvin G Sigurðsson