Aukið framboð í fjarnám á háskólastigi - spennandi kostur
Frá stofnun hefur MSS átt samstarf við háskóla landsins um fjarnám á háskólastigi og má þar sérstaklega nefna mikið og gott samstarf við Háskólann á Akureyri. Fyrsti fjarnámshópur MSS útskrifaðist frá HA árið 2004 og síðan hafa einstaklingar útskrifast þaðan árlega. Með því að bjóða upp á tækifæri til að stunda háskólanám í heimabyggð hefur tekist að fjölga einstaklingum með háskólamenntun á svæðinu. Samkvæmt Stöðuskýrslu Suðurnesja vegna 20/20 sóknaráætlunar hefur útskrift háskólamenntaðra einstaklinga á Suðurnesjum fjórfaldast síðan MSS fór að sinna fjarnemendum frá HA. Það er ánægjuleg þróun og samfélaginu til mikils sóma.
Á tímum atvinnuleysis er þekkt að einstaklingar nýti tímann og auki við menntun sína en með aukinni menntun eru líkur á að komast fyrr á atvinnumarkað eða einfaldlega að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Margir möguleikar eru í boði við hina fjölmörgu háskóla í landinu bæði í staðnámi og fjarnámi. Suðurnesjamenn hafa sl. áratug stundað fjarnám við hinar ýmsu greinar við Háskólann á Akureyri og má þar nefna viðskiptafræði, hjúkrunarfræði, iðjuþjálfun, sjávarútvegsfræði og kennarafræði. Háskólinn hefur nú stóraukið framboð sitt í fjarnámi og fyrir utan þessi svið þá verður í haust boðið upp á nám í líftækni, sálfræði, félagsvísindum, fjölmiðlafræði, náttúru- og auðlindafræði og nútímafræði. Nýr hópur í Hjúkrunarfræði verður tekinn inn haustið 2012. Með þessu aukna framboði ættu möguleikar Suðurnesjamanna að ná sér í menntun að aukast til muna og það án þess að þurfa að flytja eða ferðast daglega til Reykjavíkur. Við hvetjum alla til að skoða möguleika sína og minnum á að hægt er að panta tíma hjá náms- og starfsráðgjöfum MSS til að skoða þá möguleika sem eru í boði.
Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðumaður MSS