Auðvitað kjósum við!
eftir Ragnheiði Elínu Árnadóttur, alþingismann
Þráspurður í fyrirspurnartíma á Alþingi á fimmtudag gat fjármálaráðherra ekki fengið það af sér að svara því hvað myndi styrkja samningsstöðu Íslands best í áframhaldandi Icesave-viðræðum – að þjóðin segði já, nei eða færi ekki að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn. Ó nei… ráðherrann taldi að hver og einn kjósandi ætti að fá að gera þetta upp við sig sjálfur, hann ætlaði ekki að fara að skipa fólki fyrir.
Þetta er sami maðurinn og sagðist fáum dögum eftir synjun forseta ekki ætla að sitja aðgerðarlaus og horfa á þjóðina fella samninginn sinn – nei hann skyldi berjast fyrir því að fá hann samþykktan. Þá sýndist honum þjóðinni ekki veita af pólitískri leiðsögn þó svo að honum hafi þótt það hlægilegt á Alþingi á fimmtudag að til þess væri ætlast af honum.
Það er átakanlega sorglegt að fylgjast með forystumönnum ríkisstjórnarinnar tilkynna þjóð sinni það að þeir ætli að bregðast henni á ögurstundu. Hvernig getur það mögulega skaðað hagsmuni Íslands að þjóðin standi saman og felli samning sem allir eru sammála um að sé algerlega óviðunandi fyrir íslenska þjóð? Hvernig getur það mögulega skaðað hagsmuni Íslands í áframhaldandi viðræðum að viðsemjendur okkar sjái svart á hvítu að við séum tilbúin til að berjast fyrir hagsmunum okkar?
Með úrtölum sínum, afneitun og vanhæfni hafa þessir tveir reynslumiklu forystumenn í íslenskum stjórnmálum dæmt sig úr leik. Ég hvet þjóðina til að tryggja sjálf sína hagsmuni og mæta á kjörstað og greiða atkvæði gegn Icesave-samningi Steingríms og Jóhönnu. Ekki að sitja heima, eins og svekktir leiðtogar ríkisstjórnarinnar, sem geta ekki horfst í augu við þá staðreynd að hagsmunir þjóðarinnar eru svo miklu mikilvægari en sært stolt vegna misheppnaðra samninga.
Við hin vitum, að NEI þjónar hagsmunum okkar best til framtíðar.