Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Auðlindirnar verða ekki frá okkur teknar
Þriðjudagur 21. apríl 2009 kl. 11:17

Auðlindirnar verða ekki frá okkur teknar

Sú saga gengur fjöllum hærra að auðlindir landsins verði frá okkur teknar ef við göngum í ESB. Þessi fullyrðing er algerlega úr lausu loftin gripin og styðst ekki við nokkur rök. Staðreyndin er sú að að samkvæmt stofnsáttmála ESB eru auðlindir innan landgrunns, þ.e. bæði á landi og á landgrunni á hafi úti, eign viðkomandi ríkis, sbr. 295.gr., sem er samhljóða 125. gr. EES-samningsins, þar sem segir: "Samningur þessi hefur engin áhrif á reglur samningsaðila um skipan eignarréttar." Þannig er og verður allur jarðhiti, vatnsföll, olía, fiskur og hvað annað, sem við viljum flokka undir auðlindir, í eigu þjóðarinnar ef við göngum í ESB. Um þetta ákvæði stofnsáttmálans hefur aldrei verið deilt meðal aðildarríkja enda er öllum þjóðum annt um auðlindir sínar – ekki bara Íslendingum. Það liggur í orðanna hljóðan að um er að ræða uppsprettu auðs og vitaskuld vill engin þjóð láta auðlindir af hendi. Til að breyta þessu ákvæði stofnsáttmála ESB þarf samþykki þjóðþinga allra aðildarríkja og það nægir að aðeins eitt þeirra hafni breytingunni til að málið verði látið niður falla. Það eru því engar líkur til þess að aðildarríki ESB muni breyta þessu ákvæði. Það eru hins vegar talsverðar líkur á því að Sjálfstæðisflokkurinn haldi áfram að færa flokksgæðingum sínum auðlindirnar á silfurfati enda hugnast honum ekki að festa í sessi eignarhald þjóðarinnar á auðlindum landsins. Sjálfstæðisflokkurinn er þá kannski bara hættulegri hagsmunum þjóðarinnar en Evrópusambandið - þegar allt kemur til alls?

Anna Margrét Guðjónsdóttir
Skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024