Aðsent

Atvinnuuppbygging er forsenda góðs mannlífs
Gunnar Þórarinsson, Elín Rós Bjarnadóttir, Davíð Páll Viðarsson og Alexander Ragnarsson, bæjarfulltrúar og varabæjarfulltrúar Frjáls afls.
Miðvikudagur 25. nóvember 2015 kl. 10:49

Atvinnuuppbygging er forsenda góðs mannlífs

Í sveitarstjórnarkosningunum í Reykjanesbæ í fyrra greiddu kjósendur m.a. atkvæði um atvinnustefnu bæjarfélagsins. Allir flokkar, sem fengu fulltrúa í bæjarstjórn, lögðu áherslu á  áframhaldandi uppbyggingu í Helguvík þar sem markmiðið er fjölbreytt  atvinnutækifæri til vel launaðra starfa. Þessar áherslur voru tíundaðar í málefnasamningi sem núverandi meirihluti bæjarstjórnar gerði með sér. Jafnframt var lögð áhersla á að gæta sérstaklega að umhverfisáhrifum og að verkefnin yrðu í samræmi við lög og reglur um skipulag og umhverfisáhrif.

Það hefur verið stefnan í mörg ár að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið hér sem annars staðar.  Sérstaklega hefur verið lögð áhersla á að skapa hér störf sem krefjast tækni-  og háskólamenntunar. Störf sem gefa góð laun bæði fyrir konur og karla.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það liggur í augum uppi að allt frá því að varnarliðið hvarf á brott, hefur straumur fólks legið til Norðurlanda í atvinnuleit. Flest er þetta fólk vel menntað og eftirsótt á þessum slóðum, í margs konar vinnu við þess hæfi. Þetta hefur gerst af því að hér er ekki í boði framtíðaratvinna við hæfi þessa fólks, hvorki hvað varðar menntunarkröfur né laun. Smám saman hefur þetta fólk flust burt af landinu með fjölskyldur sínar.

Með ofangreindum verkefnum er leitast við að tryggja sem best hagsmuni heildarinnar, fjölskyldunnar og heimilisins. Með öflugu átaki í atvinnumálum er stefnt að því að skapa hér gott og stöðugt atvinnulíf. Það er forsenda  þeirrar velmegunar sem stefnt er að, þar með að íbúðaverð hækki með aukinni eftirspurn.  

Bæjarstjórn, sem var kosin af íbúunum til fjögurra ára árið 2014, hefur fylgt þessari stefnu dyggilega eftir í samræmi við lýðræðislegt umboð frá íbúum.

Látið hefur verið að því liggja að íbúar hafi ekki getað verið með í ráðum við ákvörðun þeirra verkefna sem eru á döfinni. Það er einfaldlega rangt. Það á ekki við um álverið þar sem umhverfisáhrif voru kynnt á sínum tíma og íbúum gefin tækifæri til að gera athugasemdir. Sama á við um kísilver United Silicon og Thorsil þar sem farið var yfir allar athugasemdir í umhverfisráði Reykjanesbæjar og þeim svarað án þess að gerðar væru athugasemdir við þau svör.  

Umhverfisráð bæjarins og síðar bæjarstjórn samþykktu síðan breytt skipulag þar sem lögð var áhersla á að fulltrúar Reykjanesbæjar hefðu aðkomu að eftirliti með umhverfisáhrifum þessara þriggja fyrirtækja.

Nú hafa undirrituð að sjálfsögðu ekkert við það að athuga að íbúar láti í ljós skoðun sína á öllum  athöfnum og samþykktum bæjarstjórnar. Það er nauðsynlegt  að fá fram álit  bæjarbúa á gerðum bæjarstjórnar á hverjum tíma, hvort sem manni líkar betur eða verr. Sú lýðræðisvakning sem virðist vera fyrir hendi er af hinu góða og það eru komandi íbúakosningar líka, ef  langflestir bæjarbúar með kosningarétt taka þátt í  þeim.  Þannig næst fram sýn á það hver vilji íbúanna er í þessum efnum. Engu að síður hefur bæjarstjórn einungis svigrúm til að taka tillit til niðurstaðna slíkra kosninga ef hún hefur ekki samþykkt það sem kosið er um.
Gunnar Þórarinsson, Elín Rós Bjarnadóttir, Davíð Páll Viðarsson og Alexander Ragnarsson, bæjarfulltrúar og varabæjarfulltrúar Frjáls afls.