Atvinnutækifæri í álveri
Atvinnumál á Suðurnesjum hafa lengst af verið frekar einsleit; fiskurinn eða kaninn. Nú þegar bæði kaninn og mest allur kvótinn er farinn þurfum við að styrkja stoðir atvinnulífsins til muna. Við þurfum störf sem krefjast háskóla- og iðnmenntunar sem og almenn verkamannastörf. Álver í Helguvík getur verið þessi trausta stoð sem okkur vantar til að gera atvinnulífið hér blómlegra og öruggara.
Ég taldi að við Suðurnesjamenn fögnuðum öllum atvinnutækifærum sem okkur byðist og tækjum fyrirtækjum opnum örmum þegar þau ætla sér að byggja upp starfsemi sína hér. Sérstaklega þegar um framkvæmd á þessa stærðargráðu væri um að ræða, en það er alls ekki þannig.
Norðurál leitaði til Reykjanesbæjar um lóð undir álver í Helguvík, auðvitað var tekið vel í það eins og með öll önnur fyrirtæki sem vilja byggja upp starfsemi sína hér og var niðurstaðan að Reykjanesbær og Garður útveguðu Norðuráli lóð í Helguvík fyrir álver.
Norðurál mun skapa mörg hundruð störf fyrir Suðurnesjamenn með álveri í Helguvík með beinum og óbeinum hætti. Þeir hafa fylgt öllum lögum og reglugerðum í undirbúningsferlinu allt að leiðarenda, samt eru alltaf einhverjir sem reyna að leggja stein í götu Norðuráls með öllum þeim hindrunum sem hægt er að búa til.
Mér finnst Norðurál vera lagt í einelti. Það er ótrúlegt að lítill hópur afturhaldssinnaðra „umhverfissinna“ skuli gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir þetta gríðarlega atvinnutækifæri verði að veruleika. Þarna munu ungir Suðurnesjamenn, sem hafa farið og menntað sig frá heimabyggð, hafa tækifæri til að snúa til baka í gott vel launað starf hjá Norðuráli. Við Suðurnesjamenn þurfum að standa saman og ekki láta lítinn þrýstihóp eyðileggja þetta gríðarlega stóra tækifæri sem er komið uppí hendurnar á okkur Suðurnesjamönnum.
Ungt samfylkingarfólk á Suðurnesjum hefur gefið út yfirlýsingu um að þau séu á móti atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum í formi álvers. Sem er algjörlega á skjön við áherslur sveitarfstjórnarmenn Samfylkingarinnar á Suðurnesjum. Það hefur ekkert sveitafélag lagst á móti álveri í Helguvík. Við Suðurnesjamenn eigum að standa þétt við bakið á öllum þeim fyrirtækjum og einkaaðilum sem sækjast eftir því að skapa hér atvinnu.
Gunnlaugur Kárason
Háskólanemi í Reykjanesbæ