Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Atvinnumál í brennidepli
Fimmtudagur 4. maí 2006 kl. 14:44

Atvinnumál í brennidepli

Í komandi sveitarstjórnarkosningum munu atvinnumál vera í brennidepli í Sveitarfélaginu Vogum. Þessum málaflokki hefur lítið verið sinnt á síðustu kjörtímabilum og tímabært að þar verði breyting á.
Fyrirtæki eru fá í Vogum miðað við bæjarfélög af sömu stærðargráðu. Hér eru, samt sem áður, nokkur fyrirtæki sem staðið hafa lengi og sum hver unnið brautryðjendastarf hvert á sínu sviði. Þennan kraft þarf að nýta til enn frekari eflingar og vill E-listinn leggja sitt af mörkum í þeim efnum.

E-listinn hefur það á stefnuskrá sinni að hlúa að þeim fyrirtækjum sem eru í bænum og laða jafnframt að ný fyrirtæki. Framboðið sér þrjár mikilvægar leiðir sem hægt er að fara í þessum efnum.

1) Setja á stofn Atvinnumálanefnd.
2) Markaðsetja sveitarfélagið á meðal fyrirtækja landsins.
3) Virkja samvinnu og samstarf við fyrirtæki og félög sem starfa í bænum.

Markvissri atvinnuþróun hefur ekki verið sinnt nægilega í bæjarfélaginu. Með stofnun sérstakrar nefndar um þetta málefni er ljóst að vægi þessara mála verður meira en hingað til hefur verið. Slík nefnd ætti að koma að atvinnustefnu bæjarfélagsins sem og að vinna náið með bæjarstjórn að markaðsetningu bæjarfélagsins meðal fyrirtækja ásamt því að styðja við bakið á þeim fyrirtækjum sem fyrir eru í sveitarfélaginu. Með því að halda reglulega atvinnumálafundi (borgarafundi) í samstarfi við félög og fyrirtæki má nálgast hugmyndir frá brautryðjendunum sjálfum.

Sveitarfélagið Vogar er tvímælalaust eitt best staðsetta bæjarfélagið á Suðurnesjum með tilliti til atvinnustarfsemi og þjónustu. E-listinn leggur áherslu á að Sveitarfélagið Vogar verði eftirsótt af öflugum fyrirtækjum sem sækjast eftir stöðugu vinnuafli og vilja vera í nánd við góðar hafnir og alþjóðaflugvöll.

Ef Sveitarfélagið Vogar ætlar sér að halda sjálfstæði sínu til framtíðar og standa undir þeim skuldbindingum sem það hefur sett þá er mjög mikilvægt að atvinnutækifærum fjölgi. Með fyrirtækjum kemur fjármagn og óráð að horft sé fram hjá því. Því ætlar E-listinn að taka atvinnumálin föstum tökum og gefa þeim þann sess sem þeim ber í ört vaxandi samfélagi.
Höfundar eru: Birgir Örn Ólafsson, 1. sæti

Anný Helena Bjarnadóttir, 4. sæti
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024