Atvinnumál á Suðurnesjum: Kallinum svarað
Í grein Kallsins á kassanum, sem birtist í Víkurfréttum er krafist tafarlausra svara stjórnmálamanna við því hvað sé til ráða til að sporna við sívaxandi atvinnuleysi á Suðurnesjum. Við könnumst öll við tölurnar. Atvinnuleysið hefur fjórfaldast á tveim árum og er nú eitt það mesta á landinu. Á um níu mánaða tímabili hafa um 150 manns misst vinnuna uppi á Velli. Ég hef fylgst grannt með þessari þróun, hef miklar áhyggjur af henni og hef velt fyrir mér hvað sé til ráða af hálfu okkar stjórnmálamanna. Mér er bæði ljúft og skylt að viðra nokkrar af þessum hugmyndum hér.
Áður en lengra er haldið þá vill ég taka það fram að það er grundvallarskoðun mín að hið opinbera eigi ekki að vera að vasast í atvinnurekstri sem betur er kominn í höndum einkaaðila. Það er hins vegar skylda stjórnvalda að skapa skilyrði til að atvinnurekstur fái að dafna undir merkjum einkaframtaksins.
Sinnuleysi stjórnarliða
Þeir flokkar sem nú hafa setið alltof lengi við stjórnvölinn hér á landi hafa leikið atvinnulíf á Suðurnesjum afar grátt. Mér finnst það til dæmis alveg forkastanlegt að ríkisstjórnin skuli ekki fyrir löngu hafa einmitt gripið til aðgerða til að búa í haginn og renna stoðum undir atvinnulíf sem gæti komið í staðinn fyrir þau störf sem óhjákvæmilega myndu tapast í tengslum við Varnarliðið og brottför þess. Allir sem vilja vita, hafa lengi gert sér grein fyrir því að starfsemi þess myndi dragast mjög saman og jafnvel hætta. Það þarf ekki annað en að fylgjast með þróun alþjóða stjórnmála til að skilja það.
Það var hlálegt að heyra Suðurnesjaþingmanninn Hjálmar Árnason, formann þingflokks Framsóknarflokksins, lýsa því í fréttum RUV á mánudag að bandarísk stjórnvöld væru með fólk á Suðurnesjum í gíslingu. Hið rétta er að það eru ríkisstjórnarflokkarnir sem halda fólki í gíslingu. Þetta gera þeir með aðgerðaleysi sínu í því að hlúa að atvinnumálum á svæðinu, og sinnuleysi sínu í því að veita fólki þær upplýsingar um framtíð þess sem það á kröfu á. Með upphlaupi sínu var Hjálmar ekki að gera neitt annað en að reyna að draga athygli fólks frá þessari staðreynd. Að benda á einhvern annan.
Mál varðandi veru hersins á Keflavíkurflugvelli, þar með talið atvinnumál, komu margoft til umræðu á Alþingi á liðnum vetri. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, sem ber ábyrgð á ástandinu, var þar yfirleitt til andsvara. Við í stjórnarandstöðunni spurðum hann hvað eftir annað hver hin raunverulega staða væri í þessum málum, og hvað íslensk stjórnvöld hyggðust gera til að mæta þeim vanda sem kæmi upp í tengslum við samdráttinn. Halldór lét yfirleitt hjá líða að svara spurningum okkar, eða þá að hann svaraði einhverju út í hött. Hjálmar Árnason tók einu sinni til máls í þessum umræðum og talaði í tvær mínútur. Þessar umræður er hægt að finna á vef Alþingis.
Illa farið með peninga
Betur hefði verið að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefðu eytt einhverjum af þeim milljörðum sem hafa farið í utanríkisþjónustu undir stjórn Halldórs Ásgrímssonar, í að hlúa að uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum. Utanríkisþjónustan hefur tútnað út á undanförnum árum. Árið 1996 voru útgjöld utanríkisráðuneytisins um tveir milljarðar. Á síðasta ári var þessi upphæð 5,5 milljarðar. Peningum hefur verið sólundað í sendiráð út um allar koppagrundir, hernaðaræfintýri í Kosovo og Afganistan, vafasama umsókn Íslands að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og áfram má telja.
Þetta er utanríkisstefna Framsóknarflokksins í praksís. Fjármunum þjóðarinnar er sólundað til að reyna að gera veg utanríkisráðherrans sem mestan á meðan hann er í embætti, þegar þessum peningum hefði verið betur varið til að hlúa að því sem skiptir máli hér heima á Íslandi. Að fólk hafi vinnu.
En hvað er til ráða til að vinna bug á atvinnuleysisdraugnum? Ég tel að við eigum fyrst og fremst að horfa til gjaldeyrisskapandi grunnatvinnugreina þar sem þegar er fyrir hendi mikil þekking, mannauður og netverk fyrirtækja og tækjabúnaðar á svæðinu. Hér á ég fyrst og fremst við ferðamál og sjávarútveg. Hér hefði ríkisstjórnin fyrir löngu átt að taka til hendinni.
Þrír áherslupunktar
Ég skal í stuttu máli gera grein fyrir því hvað ég hefði viljað leggja áherslu á:
1. Lagning Suðurstrandarvegar. Góður vegur sem tengir Suðurnes við Suðurland yrði tvímælalaust mikil lyftistöng, bæði fyrir ferðaþjónustu og aðra þætti atvinnulífsins. Bæði Suðurland og Suðurnes myndu njóta góðs af þessu. Fyrir erlenda ferðamenn sem eru komnir til að skoða landið þá býður þessi leið upp á mikla möguleika. Suðurstrandarvegurinn liggur um svæði sem býr yfir mikilli náttúrufegurð. Leiðin að honum liggur framhjá ferðamannaperlum eins og Bláa lóninu og Svartsengi. Þegar komið er til Þorlákshafnar blasir Suðurland og Vestmannaeyjar við í allri sinni dýrð. Þarna eru miklir möguleikar.
2. Breyta kvótakerfinu. Ríkisstjórnarflokkarnir viðhalda, verja og auka enn á slæmar afleiðingar núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfis. Nýjasta dæmið er kvótasetning á trillur sem róa með handfæri um sumartímann. Um 35 slíkir bátar eru gerðir út í Suðurkjördæmi. Á árabilinu 1998 til 2003 lönduðu þeir alls um 3.000 tonnum af bolfiski í kjördæminu. Langmest þorski og mest á Suðurnesjum þar sem fiskvinnslufyrirtæki í Sandgerði hafa aukið vinnslu á afla frá þessum bátum. Það munar um minna, en auðvitað þurfti ríkisstjórnin að eyðileggja þetta eins og annað til að þjóna hagsmunum kvótabraskara á kostnað fólksins í landinu. Átti Hjálmar Árnason ekki svo lítinn hlut í þeim ömurlega gjörning nú í vor.
Við þurfum ekki annað að en að skoða hafnir á Suðurnesjum, til að mynda í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði og síðan hugsa nokkur ár aftur í tímann til að átta okkur á því hvað hér hefur gerst. Sandgerði er sárasta dæmið um það hvernig kvótakerfið hefur leikið fiskihafnir og atvinnulíf Suðurnesjamanna. Þetta er sárt, því að Suðurnes eiga mikla möguleika í sjávarútvegi með rík fiskimið í nágrenni sínu og alþjóða flugvöll til útflutnings á ferkum fiski sem hæstu verð fást fyrir. Það á strax að afnema kvótasetningar á ýsu, ufsa, keilu, löngu, skötusel og kolmunna. Ef nýjustu ástandsskýrslu Hafrannsóknarstofnunar er flett þá sést að ekkert mælir með því að þessir stofnar séu í kvóta. Þeir eru ekki í neinni hættu, heldur örum vexti samfara miklum hlýjindum í sjónum umhverfis landið. Afnám kvótasetningar í þessum tegundum yrði mikil vítamínsprauta fyrir atvinnulíf á Suðurnesjum og reyndar víðar í Suðurkjördæmi.
3. Sædýrasafn í Sandgerði. Á síðustu dögum þinghalds í vor, samþykkti Alþingi að fela ríkisstjórninni að kanna kosti og hagkvæmni þess að byggt yrði veglegt sædýrasafn hér á landi. Þessu ber að fagna. Slík söfn eru mjög vinsæl víða erlendis. Þau hafa mikið aðdráttarafl, bæði fyrir skólafólk og innlenda og erlenda ferðamenn.
Ég tel að ef vel yrði að slíku safni staðið, þá ætti það að geta orðið jafn heillandi og Bláa lónið. Sandgerði yrði góður staður. Þar eru þegar stundaðar rannsóknir á sjávarlífverum sem lifa umhverfis Ísland. Sandgerði er falleg fiskihöfn þar sem áreiðanlega yrði mikið líf og fjör ef kvótakerfinu yrði breytt eins og lagt er til hér fyrir ofan. Þar er til staðar fiskvinnlufyrirtæki og fiskmarkaður. Þetta mætti allt tengja saman og gera Sandgerði að frábærum og einum allsherjar sýningarglugga fyrir hið ríka lífríki í hafinu umhverfis Ísland, íslenskan sjávarútveg og menningu tengda honum.
Sædýrasafnið í Sandgerði yrði lyftistöng fyrir ferðamál á Suðurnesjum, auk þess sem það gæti styrkt svæðið sem miðstöð fyrir rannsóknir í sjávarlíffræði hér á landi.
Nokkur lokaorð
Það er mín sannfæring að Suðurnes búa yfir ótal sóknarfærum, þó það beri að harma hvernig þeim hefur verið spillt með sinnuleysi og hugmyndafátækt ríkisstjórnarflokkanna. Þær hugmyndir sem ég hef nefnt hér fyrir ofan, ættu í raun allar fyrir löngu að vera komnar á rekspöl því lengi hefur verið ljóst að eitthvað þyrfti að gera í atvinnumálum á svæðinu. Einnig mætti nefna fleiri hugmyndir, til að mynda um að nota flugskýli sem losna á Keflavíkurflugvelli undir alþjóðlega viðhaldsstöð fyrir farþegavélar. Svo skulum við heldur ekki gleyma voninni um að hægt verði að koma upp nýjum iðnaði á svæðinu. Fyrirhuguð virkjun Hitaveitu Suðurnesja er til að mynda mikið fagnaðarefni.
En einfaldast tel ég eins og staðan er nú, að leggja áherslu á grunnstoðirnar sem við höfum þó í dag. Ferðamál og sjávarútveg.
Vona að Kallinn á kassanum og aðrir lesendur séu sátt við svarið.
Magnús Þór Hafsteinsson, 9. þingmaður Suðurkjördæmis er þingflokksformaður og varaformaður Frjálslynda flokksins.
Ljósmynd: skarpur.is