Atvinnumál á Suðurnesjum
Atvinnumál á Suðurnesjum hafa verið í brennidepli síðan herinn fór af Keflavíkurflugvelli. Farsællega hefur gengið fyrir flesta sem missti þar vinnuna að finna sér ný störf. Það er þó flestum ljóst á Suðurnesjum að það verður að koma hér upp stórum og öflugum fyrirtækjum sem gætu komið í stað þess stóra vinnuveitanda sem herinn var. Það er auðvita ekkert augljóst í þeim efnum en vel hefur verið unnið af bæjaryfirvöldum hér á Suðurnesjum að finna leiðir til að styrkja undirstöður atvinnulífsins á ný.
Varnarsvæðið og stóriðja
Nýtt fyrirtæki hefur verið stofnað um eignirnar á varnarsvæðinu gamla og eru nú leitað leiða til að glæða byggingarnar þar lífi á ný. Verðmæti eignanna á varnarsvæðinu er um 160 milljarðar króna sem innifelur m.a. flugskýli, skóla, verslanir, vöruskemmur, atvinnuhúsnæði, skemmtistaði, íbúðir o.fl. Landsvæðið sem þetta nýja fyrirtæki ræður yfir er um 9500 ha og er því ljóst að þarna eru um stórt landsvæði að ræða og mikil verðmæti í landi og fasteignum. Vonast er til að þarna rísi fjölþætt starfsemi í kringum háskóla, opinberar stofnanir, frísvæði, innanlands- og millilandaflug o.m.fl. Ekki er nokkur vafi á því að þarna mun opnast mikill brunnur tækifæra fyrir Suðurnesjamenn og landsmenn alla.
Baráttan um álver í Helguvík hefur staðið um nokkurt skeið og verður að segjast að það gengur betur en á horfðist en þegar viðskiptaráðherra lagðist gegn þessari hugmynd og þingið var hlutlaust. Það er ljóst að björninn er ekki unnin þrátt fyrir þetta því margir eru um þennan bita. Suðurnesjamenn verða því að berjast fyrir sínu ef við ætlum að ná hingað svo stóru og miklu fyrirtæki.
Ferðamál
Mörgum finnst álver fara illa saman við atvinnuvegi eins og ferðamennsku. Í mínum huga þarf svo ekki að vera. Margir af vinsælum ferðamannastöðum landsins verða til vegna raforkumannvirkja sem reist eru til að þjóna stóriðju. Má þar nefna Búrfellsvirkjun og allir vita hvernig Bláa Lónið varð til. Það hefði fáum dottið í hug að það yrði vinsælt að fara upp á gamla varnarsvæðið og skoða yfirgefna herstöð, en svo er nú samt.
Mín skoðun er sú að álver geti orðið vinsæll viðkomustaður ferðamanna ef aðstandendur þeirra taka þá stefnu. Til þess þarf þó að gera umhverfi álvera meira aðlaðandi og fella þau að umhverfinu. Þar þurfa forsvarsmenn þeirra að taka sér tak.
Kristján Pálsson