Atvinnulífið í gang nú þegar
Hjól atvinnulífsins eru undirstaða þess drifkraftar sem knýr íslenskt samfélag. Það verður að koma atvinnulífinu í gang nú þegar, uppbyggingarstarfið verður að hefjast strax, íslenskt samfélag hefur ekki efni á að bíða mikið lengur. Skammtímalausnir duga ekki til langframa, ekki þýðir að plástra heimilin endalaust með plástrum sem duga skammt gegn þeim vanda sem við blasir. Stýrivextirnir verða að lækka hratt og tryggja þarf fyrirtækjunum í landinu aðgang að fjármagni á viðráðanlegum kjörum. Með þeim hætti geta fyrirtækin haldið áfram að skapa verðmæti og veita fólki atvinnu.
Um leið og fólk fær vinnu þá eflist það og öðlast trú á framhaldinu. Það er einmitt nauðsynlegt núna að komast út úr vonleysinu og byggja upp bjartsýni. Slíkar aðgerðir tryggja og viðhalda skatttekjum ríkissjóðs, þar fær ríkissjóður fjármagn til ráðstöfunar af skatttekjum fyrirtækja og vinnandi fólks. Þá erum við einnig farin að aðstoða heimilin með aukinni greiðslugetu og meiri von í hjarta. Á meðan þetta kemst í gang þarf að semja um að heimilin greiði eftir greiðslugetu af skuldum sínum og veita þeim biðlund með það sem eftir stendur. Nú verðum við að forgangsraða peningunum og því tel ég nauðsynlegt að nýta þá í verkefni sem skapa meiri fjármuni eins og atvinnulífið. Það hlýtur að vera hagkvæmara að borga fólki laun við verðmætasköpun heldur en að hafa það aðgerðalaust á atvinnuleysisbótum.
Vilhjálmur Árnason
Frambjóðandi í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi.