Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Atvinnulífið á Suðurnesjum styrkist
Sunnudagur 7. apríl 2013 kl. 09:13

Atvinnulífið á Suðurnesjum styrkist

Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur aðra stefnu í atvinnumálum en mörkuð var í ráðherratíð Valgerðar Sverrisdóttur. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill byggja upp fjölbreytt atvinnutækifæri þar sem sem flestir geta fundið hæfileikum sínum farveg. Sérstök áhersla er lögð á nýsköpun, hefðbundnar framleiðslugreinar, hugverk og ferðaþjónustu. Vinstrihreyfingin - grænt framboð leggur áherslu á að fólk í heimabyggð móti áherslur og stefnu í  atvinnumálum á sínu svæði.

Fjöldinn allur af verkefnum hafa fengið bein fjárframlög frá ríkinu síðasta kjörtímabil og er það mat mitt að aldrei áður hafi Suðurnesjunum verið eins vel sinnt og einmitt síðasta kjörtímabil.
Atvinnuþróunarfélagið Heklan var stofnað og er það staðsett í húsnæði ríkisins og ríkið greiðir a.m.k. helming launakostnaðar. Ótal nýsköpunarverkefni með stuðningi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands o.fl. t.d.  Frumkvöðlasetrið Eldey á Ásbrú. Suðurnesin fengu loks vaxtarsamning sem er afgerandi þáttur í eflingu atvinnulífs til framtíðar og gerður var menningarsamningur við Suðurnes sem styður af miklum myndarskap við menningarstarf á svæðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í menntamálum hefur verið gert átak til eflingar menntunar á Suðurnesjum undir verkefnaheitinu Menntavagninn. Menntamálaráðherra bætir fjárhag Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Ef hugsað er í áratugum er góð menntun mikilvægasta atvinnubótin. Keilir búinn að fá fastari grundvöll, er öflug stoð atvinnulífs og Fisktækniskólinn í Grindavík kominn á kortið með tímabundnum stuðningi frá ríkinu.

Skrifað var undir samning við ríkið um þekkingarsetur í Sandgerði og mikið fjármagn hefur verið lagt í að koma atvinnulausum út á vinnumarkaðinn með ýmsum átaksverkefnum ríkis, atvinnurekenda, stéttarfélaga og sveitarfélaga. Komið var á nýju almenningssamgangnakerfi í útboði, með stuðningi ríkisstjórnarinnar auk þess sem aukaframlag var veitt upp á 26 milljónir til að fjölga ferðum og bæta leiðarkerfið.

Ráðist var í byggingu Hjúkrunarheimilis á Nesvöllum í Reykjanesbæ og ívilnunarlög fyrir gagnaver samþykkt til að Netþjónabú á Ásbrú geti hafið rekstur sinn, hátæknifiskvinnslan Marmeti í Sandgerði nýtur ívilnunar samkvæmt nýjum lögum og eru þar 40 ný störf í burðarliðnum. Nú nýlega var lokið við Sóknaráætlun Suðurnesja þar sem 5 milljónir voru veittar í verkefni til að fullvinna sjávarfang á svæðinu, 4 milljónir í að efla og styrkja tónlistarhefð á Suðurnesjum, 5 milljónir í flugtengda starfsemi og ferðaþjónustu, 5 milljónir í heilsutengda ferðaþjónustu, 5 milljónir í átak í iðnmenntun og 16,8 milljónir í að markaðssetja svæðið, styrkja ímynd og orðspor, efla sjálfsmynd íbúa og bæta upplýsingar til ferðamanna.

Til að minnka atvinnuleysið á Suðurnesjum er ekki nóg að fá eitt álver með sérhæfðum störfum. Það þarf að byggja upp fjölbreytt og öflugt atvinnulíf sem styrkir svæðið til lengri tíma. Það tekur tíma og nú þegar hefur margt áunnist. En ég held að það sé rétt hjá mér að engin ríkisstjórn hafi látið eins mikið fé til Suðurnesja og einmitt þessi. Ef einhver er ekki sammála því þyrfti hann að nefna dæmi og tölur í stað þess að vera með stöðugan áróður og gífuryrði.

Arndís Soffía Sigurðardóttir
1. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.

Inga Sigrún Atladóttir
2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.