Atvinnuleysisbætur og afkoma heimila
Samkvæmt nýjustu tölum Vinnumálastofnunar er atvinnuleysi á Suðurnesjum 16,5%, það hæsta á landinu. Atvinnuleysi á landinu öllu er 8,8%. Á Suðurnesjum er atvinnuleysi meðal karla 14,8% en 19% meðal kvenna. Augljóslega ætti ríkisstjórnin og þingmenn svæðisins að leita logandi ljósi að lausn á vanda þeirra sem misst hafa vinnuna. Og gæta sérstaklega að Suðurnesjum sem verða allra verst úti.
Hver sá sem lendir í því að missa vinnuna verður fyrir miklu áfalli og það getur dregið dilk á eftir sér. Langtíma atvinnuleysi hefur ekki aðeins slæmar fjárhagslegar afleiðingar heldur einnig félagslegar. Atvinnuleitendur í árangurslausri atvinnuleit þurfa því ekki aðeins fjárhagslegan stuðning heldur einnig andlegan stuðning. Gæta þarf sérstaklega að börnum atvinnulausra.
Við sjáum ekki fyrir endann á afleiðingum faraldursins vegna COVID-19. Vonandi gengur hann yfir sem allra fyrst. Eitt vitum við þó. Þau sem missa vinnuna og fara á atvinnuleysisbætur verða að fá aukinn stuðning frá stjórnvöldum. Stjórnvöld virðast hafa mikinn skilning á stöðu fyrirtækja í vanda og á að þau þurfi að búa við einhvern fyrirsjáanleika í formi stuðnings frá ríkinu. Það þurfa heimilin líka þó minna hafi borið á skilningi ríkisstjórnarinnar á þeirri þörf.
Tekjufall
Strax þegar fólk fer af uppsagnarfresti og á atvinnuleysisbætur sér það fram á fjárhagsvanda og erfiðleika við að ráða við skuldbindingar, t.d. í formi húsnæðislána. Það sér líka fram á að eiga erfitt með að leyfa börnum sínum að taka þátt í félagsstarfi sem kostar peninga. Þegar þriggja mánaða launatengdu tímabili lýkur magnast vandinn.
Meðallaun í landinu eru um 800.000 krónur á mánuði. Tekjutengdu atvinnuleysisbæturnar sem fólk á rétt á í þrjá mánuði verða ekki hærri en 456.404 krónur á mánuði og grunnatvinnuleysisbætur sem taka við eru 289.510 krónur á mánuði. Augljóst er að heimili atvinnulausra verða fyrir gríðarlegu tjóni, með tilheyrandi afleiðingum. Þetta hefur svo margfeldisáhrif í samfélaginu því að um leið verður eftirspurn í hagkerfinu minni.
Tekjur sveitarfélaganna á Suðurnesjum hafa dregist saman, margfalt meira en í öðrum landshlutum. Sveitarfélögin verða að geta komið til móts við barnafjölskyldur og sinnt lögbundnu hlutverki sínu um velferð íbúa. Það munu þau ekki geta nema með stuðningi ríkisins ef ástandið varir lengur en nokkrar vikur til viðbótar.
Dreifum byrðunum
Eigum við að láta þau sem voru svo óheppin að missa vinnuna vegna faraldursins taka allt tjónið á sig? Eiga fjölskyldur þeirra að líða fyrir faraldurinn? Nei, auðvitað ekki. Við eigum að dreifa byrðunum. Í þannig samfélagi viljum við búa.
Við þurfum strax að lengja réttinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Við þurfum líka að lengja réttinn til grunnatvinnuleysisbóta og hækka þær um leið. Að lágmarki ætti að lengja launatengda tímabilið í sex mánuði úr þremur og réttinn til atvinnuleysisbóta um ár til bráðabirgða. Grunnatvinnuleysisbætur ættu að hækka í það minnsta að 95% af lágmarkslaunum.
Ef þau sem treysta á lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun og einstaklingar á atvinnuleysisbótum fengju hærri greiðslur frá ríkinu myndi eftirspurnin í hagkerfinu aukast um leið, enda ekki rými fyrir sparnað á þeim bæjunum. Tímabundnar eingreiðslur til viðbótar gætu ekki aðeins komið til móts við fjárhagsvanda heimila heldur einnig aukið eftirspurn sem aftur verður til þess að störfum fjölgar.
Leitum lausna
Ég mun leggja fram frumvarp í næstu viku um hærri atvinnuleysisbætur og framlengingu á launatengda tímabilinu ef ríkisstjórnin gerir það ekki þegar að þing kemur saman 27. ágúst. Fráleitum málflutningi hægrimanna um að ef bæturnar hækki vilji fleiri draga fram lífið á atvinnuleysisbótum, vísa ég til föðurhúsanna. Eða dettur einhverjum í hug að um 22.000 manns sem nú eru atvinnulaus hér á landi hafi valið sér það hlutskipti? Þvílík fásinna!
Hvað þarf til svo ríkisstjórnin vakni og taki eftir vanda Suðurnesjamanna? Strax þarf að slá á bráðavanda heimila með hærri atvinnuleysisbótum en einnig verður að leita lausna í atvinnumálum svæðisins.
Oddný G. Harðardóttir,
þingmaður Samfylkingarinnar
í Suðurkjördæmi.