Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 7. maí 2003 kl. 09:55

Atvinna verði aukin

Atvinnu, sjávarútvegsmál og þjóðlendur ber hátt í kosningabaráttu T-lista óháðra í Suðurkjördæmi. Kristján Pálsson, alþingismaður og oddviti flokksins, upplifir nú kosningabaráttu ólíka þeim sem hann hefur áður tekið þátt í. Hann kveðst ekki eiga von á því að hann muni nokkurn tíma sjá eftir því að hafa farið í baráttuna í viðtali við Fréttablaðið í dag.,,Það er mikið atvinnuleysi í kjördæminu og úr því verður að bæta," segir Kristján Pálsson, þingmaður og oddviti Tlista óháðra í Suðurkjördæmi. ,,Við viljum lækka flugvallarskatta um 76% til að auka ferðamannastraum," er eitt af því sem Kristján nefnir til að efla ferðaþjónustu.

Að auki vill hann lækka opinber gjöld af léttvíni og bjór til veitingastaða, slíkt hafi jákvæð áhrif, sérstaklega á smærri fyrirtæki á landsbyggðinni. ,,Við leggjum mikla áherslu á að styðja við bakið á frumkvöðlum. Við viljum að þeir fái fjármuni úr sjóði til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Þetta er mjög hvetjandi fyrir einstaklinga." Þá kveður hann mikilvægt að tvöföldun Reykjanesbrautar verði flýtt svo henni verði lokið á næsta ári. Þetta sé mikilvægt hvort tveggja út frá atvinnu- og öryggissjónarmiðum. Það sé óviðunandi að þessi mikilvæga samgönguleið sé látin sitja á hakanum. ,,Þetta nálgast að vera innanbæjarvegur milli hverfa. Það fara þúsundir manna um Reykjanesbraut á hverjum einasta degi vegna vinnu. Þetta fólk þarf að fara á milli sama hvernig viðrar."

Mikið rætt um sjávarútvegsmál
,,Það hefur verið mjög mikil umræða um sjávarútvegsmál," segir Kristján. Ég held það hafi komið mörgum á óvart hvað það hefur orðið mikið. Ég hef fundið fyrir óánægju vegna þeirrar þróunar sem hefur orðið í kvótanum. Ég hef varað við því, bæði í þinginu og í mínum gamla flokki, að menn yrðu að reyna að ná einhverri sátt um sjávarútvegsstefnuna, annars gæti allt farið í bál og brand. Menn tóku ekki nógu mikið mark á því að mér fannst." Kristján segir forgangsatriði að stöðva samþjöppun kvótans og losa um heljartök hans þannig að byggðirnar og einstaklingarnir hafi meiri möguleika en þau hafa í dag. ,,Þess vegna höfum við lagt til að línutvöföldun verði tekin upp að nýju og aukategundir teknar út úr kvóta." Kristján vill einnig sjá nýtingu aflans í fullvinnsluskipum aukast frá því sem nú er. ,,Hún er langt fyrir neðan það sem getur talist eðlilegt," segir Kristján. Margra milljarða verðmæti sé fleygt í hafið ár hvert.

Annað mál sem hefur verið áberandi í málflutningi Óháðra í Suðurkjördæmi er þjóðlendumálið. ,,Ég tel að þarna sé verið að vinna gegn þeim ákvörðunum sem voru teknar í þinginu," segir Kristján. ,,Það er gengið á rétt landeigenda, sem var ekki ætlun löggjafans á sínum tíma. Ég er mjög ósáttur við það að þessi vinna starfsmanna fjármálaráðuneytisins gangi svo langt að ætla má að um stjórnarskrárbrot sé að ræða. Ef við náum inn á þing munum við að sjálfsögðu klára málið þar."

Það mæðir meira á Kristjáni og félögum hans á T-lista en oft hefur verið í fyrri kosningabaráttum þeirra. Eftir að hafa tvisvar náð kjöri á þing af lista Sjálfstæðisflokksins stendur Kristján nú frammi fyrir því að sannfæra kjósendur í nýju og stærra kjördæmi um að greiða atkvæði nýju framboði sem leit fyrst dagsins ljós á vordögum. ,,Mér hefur alltaf þótt gaman í kosningabaráttum. Það hefur ekkert breyst," segir Kristján. ,,Þessi barátta er náttúrlega að því leyti skemmtileg að við erum að leggja undir okkur nýjar lendur í pólitíkinni, Suðurnesjamenn, að fara austur í Lón. Við erum um leið nýtt framboð sem hefur ekki mikil fjárráð og er ekki búið að koma sér upp stuðningsfólki alls staðar. Þá verður þetta mjög mikil vinna á efstu mönnum framboðsins. Það er flest skemmtilegt við þetta."

Kristján hefur áður verið með lista utan flokka en við aðrar aðstæður. ,,Ég var með lista í Ólafsvík í þrennum kosningum. Það gekk mjög vel í þeim kosningum. Við unnum mjög mikla sigra á þeim tíma. Þar var ég náttúrlega í einu litlu bæjarfélagi. Nú er ég kominn í kjördæmi sem nær yfir hálft landið. Það gerðist mjög snöggt. Það hefur mikil áhrif og maður nær ekki til nærri nógu margra. Við eigum það bara eftir."

Sé aldrei eftir þessu
Sérframboð í einstökum kjördæmum hafa oft átt erfitt uppdráttar. Kristján segir að það hafi ekki verið hægt annað en að bjóða fram eftir það sem á undan var gengið. ,,Þessi ferð hjá mér er búin að taka mjög langan tíma. Ég er búinn að vera í þessari baráttu frá því í nóvember," segir Kristján og vísar til þeirra deilna sem komu upp um skipan á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. ,,Ég get ekki séð annað en að sú ákvörðun að fara af stað hafi verið fyllilega réttlætanleg. Ef engir vilja rísa upp gegn misbeitingu valds og óréttlæti í þessu þjóðfélagi, heldur láta yfir sig ganga nánast hvað sem er; þá er illa komið fyrir íslenskri þjóð. Ég held að ég muni aldrei sjá eftir því að hafa farið af stað í þessa baráttu. Ég vona að kjósendur kunni að meta að menn láti ekki valta yfir sig með mjög ómerkilegum hætti."
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024