Atvinna og lífshamingja
Framundan eru afar mikilvægar kosningar. Á morgun, laugardaginn 25. apríl, munum við velja þá stjórnmálamenn sem við treystum best til þess að leiða okkur út úr þeim mikla efnahagsvanda sem við blasir. Stjórnmálamenn hafa að stórum hluta komið okkur í þá stöðu sem þjóðarbúið stendur nú frammi fyrir, með aðgerðaleysi sínu og röngum ákvörðunum í aðdraganda bankahrunsins. Í sumum flokkum eru þessir sömu stjórnmálamenn, sem bera ábyrgð á vandanum, enn í framboði eins og ekkert hafi í skorist.
Nú síðustu daga hef ég ferðast um okkar stóra kjördæmi, Suðurkjördæmi, sem nær frá Sveitarfélaginu Garði til Hafnar í Hornafirði. Fjölmargir kjósendur hafa orðið á vegi mínum. Okkur framsóknarmönnum hefur verið vel tekið. Sérstaklega hefur fólk verið áhugasamt um tillögur okkar til bjargar heimilunum og fyrirtækjunum í landinu og ber þar hæst áætlun okkar um 20% leiðréttingu skulda. Öllum ber saman um að aðgerða er þörf strax. Við megum engan tíma missa svo ekki fari illa.
Hagsmunasamtök heimilanna og margir þekktir hagfræðingar telja 20% leiðina þá einu færu sem getur komið efnahaslífinu í gang á nýjan leik og forðað þúsundum heimila frá alvarlegum fjárhagserfiðleikum og gjaldþroti.
Evrópusambandið bjargar ekki íslenskum fjölskyldum frá gjaldþroti, það er ódýr lausn að halda því fram. Í heimskreppu hugsar hver um sig. Leysa þarf bráðavandann núna.
Það gerum við ekki með því að ýta honum á undan okkur, lengja lánin og fresta afborgunum. Það þarf 20% leiðréttingu skulda strax.
Atvinnuleysið hér á Suðurnesjum er hið mesta á landinu.
Framsóknarflokkurinn er atvinnumálaflokkur. Flokkurinn hefur ávalt lagt ríka áherslu á næga atvinnu fyrir alla. Flokkurinn hefur verið óhræddur við að taka erfiðar ákvarðanir svo tryggja mætti næga atvinnu í landinu. Atvinnumál á Suðurnesjum eru forgangsmál.
Stjórnmálaflokkur sem greiðir atkvæði á móti nýjum störfum í 15% atvinnuleysi dæmir sig úr leik. Kjósendur eru skynsamir. Næg atvinna er forsenda lífshamingju.
Ég óska eftir stuðningi þínum í kosningunum.
Með vinnusemi, aga og heiðarleika að leiðarljósi.
Fyrir Suðurnesin – Fyrir okkur öll.
Birgir Þórarinsson
Skipar 3. sætið fyrir Framsókn í Suðurkjördæmi.