Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Atvinna, innviðir og uppbygging
Föstudagur 25. febrúar 2022 kl. 10:55

Atvinna, innviðir og uppbygging

Til þess að góður bær geti vaxið og dafnað þurfa innviðir hans að vera sterkir og vel undirbúnir. Skipulagsmál bæjarins þurfa að vera vel hugsuð langt fram í tímann. Það verður að vera nægt lóðaframboð bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Við sjáum þessi mistök í borginni þar sem allt of mikið er treyst á þéttingarverkefni sem eru bæði seinleg og dýr og erfitt að stýra. Of lítið lóðaframboð hefur valdið verktökum erfiðleikum, hækkanir á fasteignamarkaði eru allt of miklar sem keyra nú verðbólguna upp og staða fyrstu íbúðarkaupenda er skelfileg.

Bæjarstjórn á að vera með puttann á púlsinum og bregðast við svona aðstæðum. Það á að brjóta meira land undir byggð og reglulega á að bjóða stærri atvinnurekendum að koma við og kynna sér aðstöðuna og framtíðarsýnina á svæðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Reykjanesbær hefur þá sérstöðu að við erum steinsnar frá alþjóðaflugvelli og stórskipahöfn en við erum ekki að nýta okkur þessa sérstöðu nógu vel.

Nú þegar mörg stórfyrirtæki flýja höfuðborgina ættum við að bjóða þeim með opnum örmum að koma hingað til okkar. Við eigum að markaðssetja okkur miklu betur, nýta sérstöðuna, bjóða ódýrari lóðir og jafnvel afslætti á lóðarleigu- og fasteignagjöldum. Svo eigum við að vinna miklu betur með t.d. Isavia þegar kemur að uppbyggingarmálum til framtíðar. Við erum að þjónusta alþjóðaflugvöllinn en samtalið við Reykjanesbæ er lítið sem ekkert.

Við verðum að hlúa sérstaklega vel að atvinnulífinu og skapa jarðveg svo það geti blómstrað. Atvinnumálin eru undirstaða allrar velferðar í samfélaginu. Að hér byggist upp öflug fyrirtæki skiptir miklu máli. Stór, lítil og meðalstór fyrirtæki. Minni fyrirtæki þjónusta oft þau stærri og dafna við það. 99 prósent allra fyrirtækja á Íslandi eru einmitt lítil og meðalstór fyrirtæki.

Við þurfum að fara að sinna þessum aðilum miklu betur. Sækja fram en ekki bíða með hendur í skauti. Við eigum að finna leiðir til þess að auka verulega verslun og þjónustu í bænum okkar með því að tengjast betur flugvellinum. Reykjanesbær á að vera flugvallarborgin – móttökustöðin fyrir alla ferðamennina sem keyra hér fram hjá á leið sinni til að skoða fallega landið okkar.

En við verðum líka að tryggja fjölbreyttara atvinnulíf í Reykjanesbæ. Við megum ekki setja öll eggin í sömu körfuna. Við sáum það í kórónuveirufaraldrinum með skelfilegum afleiðingum og þúsundum uppsagna. Svo verður að passa að við getum boðið upp á nægt framboð af grænni orku á svæðinu. Því er ekki fyrir að fara í dag. Núverandi Suðurnesjalína 1 sem er 132 kV er eina línan sem flytur raforku til og frá Suðurnesjum. Ef hún fer skyndilega úr rekstri er nær undantekningarlaust straumleysi á öllu svæðinu með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á heimili og fyrirtæki. Staðreyndin er sú að afhendingaröryggi á svæðinu hefur verið í uppnámi í hartnær tvo áratugi. Það verður að klára Suðurnesjalínu 2 strax til að bæta afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum og auka flutningsgetu kerfisins. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir svæðið og framtíð þess.

Við eigum að vera óhrædd við að tala um það hve fallegur og framsækinn bærinn okkar er. Við eigum að tala hann upp en ekki niður. Reykjanesbær á að verða með bestu innviðina, frábær atvinnutækifæri og mestu uppbygginguna. Þetta svæði á að vera efnahagsvél sem keyrir hagvöxt á Íslandi.

Guðbergur Reynisson,
frambjóðandi í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.