Áttu rétt á ferðastyrk?
Að undanförnu dögum hefur undirritaður orðið var við að sumum nemendum úr Reykjanesbæ, sem stunda nám á framhalds- eða háskólastigi í skólum á höfuðborgarsvæðinu, eru ekki kunnugt um að búið er að breyta reglum Reykjanesbæjar um úthlutun ferðastyrkja í kjölfar tillögu sem undirritaður lagði fram í bæjarráði Reykjanesbæjar sl. haust. Um árabil var styrkveitingum háttað þannig að Reykjanesbær veitti eingöngu styrk í formi niðurgreidds fargjalds með SBK. Þetta þýddi að þeir sem völdu að fara á einkabíl, t.d. vegna óhentugrar tímaáætlunar rútunnar eða staðsetningar skólans innan höfuðborgarsvæðisins, nutu ekki sömu fyrirgreiðslu af hálfu sveitarfélagsins og hinir. Síðast liðið haust lagði undirritaður til að þessar reglur yrðu endurskoðaðar með það að markmiði að draga úr þessari mismunun. Niðurstaðan varð sú að bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti nýja aðferð sem byggist á því að nú fá nemendur, sem uppfylla ákveðin skilyrði til styrkveitingar, fjárstyrk og ráða hvort þeir nýta hann til niðurgreiðslu rútumiða með SBK eða til bensínkaupa á einkabíl. Þessi breyting hefur haft þau jákvæðu áhrif að nú eru mun fleiri nemendur að fá ferðastyrk en áður. Ef fjöldi nemenda, sem fengu styrk síðustu 3 árin fyrir breytinguna, er skoðaður kemur í ljós að styrkþegum fækkaði hratt vegna þess að æ fleiri völdu að fara á bíl í stað þess að nota rútuna og fengu ekki styrk í gamla kerfinu. Eins og sjá á meðfylgjandi töflu voru styrkþegar alls 65 skólaárið 1999-2000, 53 skólaárið 2000-2001 og aðeins 50 skólaárið 2001-2002. Eftir breytinguna jókst fjöldi styrkþega hins vegar um rúm 50% eða úr 50 í 77 og eru það góðar fréttir fyrir fólk í framhaldsnámi. Þær staðfesta að er auðveldara fyrir íbúa Reykjanesbæjar að stunda framhaldsnám t.d. í háskólum í Reykjavík. Vil ég hvetja alla íbúa Reykjanesbæjar, sem stunda nám á framhalds- eða háskólastigi á höfðuborgarsvæðinu, til þess að hafa samband við Skólaskrifstofu Reykjanesbæjar og afla sér frekari upplýsinga.
Kveðja
Kjartan Már Kjartansson,
bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins
Kveðja
Kjartan Már Kjartansson,
bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins