Athugasemdir foreldra vegna yfirlýsingar bæjarstjóra Grindavíkur og skólastjóra
Málsmeðferð skólastjóra og bæjarstjóra í eineltismálum vinnur gegn hagsmunum nemenda
.
Athugasemdir foreldra vegna yfirlýsingar bæjarstjóra Grindavíkur og skólastjóra grunnskólans i Grindavík um eineltismál.
Vegna yfirlýsingar bæjarstjóra Grindavíkurbæjar og skólastjóra Grunnskóla Grindavíkur.
Við undirrituð sem erum foreldrar barna sem sætt hafa einelti og annarri ámælisverðri hegðun af hálfu kennara sem starfar í Grunnskóla Grindavíkur sjáum okkur tilneydd til þess að gera nokkrar athugasemdir vegna þeirrar meðferðar sem málið hefur hlotið.
Áður en lengra er haldið er rétt að geta þess að fyrir liggja skýrslur óháðra og utanaðkomandi sálfræðinga sem staðfesta annars vegar einelti tiltekins kennara í garð nemanda við skólann og hins vegar ámælisverða hegðun hans í garð annars nemenda. Auk þess liggur fyrir undirskriftarlisti frá mörgum fyrrverandi nemendum þar sem þeir staðhæfa að þeir hafi sætt einelti og ámælisverðri framkomu sama kennara.
Þá hafa fleiri fyrrverandi nemendur skólans komið fram undanfarna daga og vikur og einnig lýst því yfir að þeir hafi sætt einelti í Grunnskóla Grindavíkur.
Hvað varðar fyrrnefnda yfirlýsingu bæjarstjóra og skólastjóra þá viljum við taka fram að bæjarstjóri hefur með yfirlýsingunni loksins látið sig varða þá alvarlegu stöðu sem óneitanlega hefur ríkt undanfarin misseri í grunnskólanum. Þykir rétt að nefna það að margsinnis hafa foreldrar reynt að vekja ráðamenn sveitarfélagsins upp af værum blundi vegna þeirrar alvarlegu stöðu àn árangurs.
Því miður þykir okkur foreldrum umræddra barna yfirlýsing nefndra aðila rýr og veldur hún okkur vonbrigðum og þá helst vegna takmarkaðra viðbragða skólayfirvalda gagnvart umræddum kennara. Að okkar mati tekur bæjarstjóri með yfirlýsingunni undir ófagleg og óforsvaranleg viðbrögð skólastjóra i þessu máli. Þetta eru gríðarleg vonbrigði fyrir okkur. Hver sem vill getur séð að viðmiðin eru þau hjá nefndum stjórnendum að láta öryggi og velferð nemenda víkja.
Í yfirlýsingunni vísa bæjarstjóri og skólastjóri til þess að þetta sé „flókið“ mál. Hið rétta er að þetta er mjög einfalt mál. Skal áréttað að samkvæmt fyrrnefndum óháðum rannsóknum sálfræðinga er óumdeilt að kennarinn hefur gerst sekur um alvarleg brot í starfi gagnvart nemendum sínum. Í því sambandi þykir rétt að upplýsa að okkur foreldrum umræddra barna hefur ekki verið tilkynnt að viðkomandi gerandi, kennari, hafi sætt viðurlögum af hálfu skólayfirvalda, bæjarstjórn eða skólanefnd, t.d. í formi áminningar eða að slíkt standi til.
Okkar upplifun er að viðbrögð skólastjóra hafi frá fyrstu stigum litast af hagsmunum gerandans, og að ekki hafi verið tekið á eineltismálinu með faglegum hætti og þannig reynt að lágmarka alvarleg andleg áhrif ofbeldisins á börnin. Þannig virðist málsmeðferðin hafa gengið út á að halda kennaranum við störf sín nær óbreyttum og því hafi markmiðið ekki verið að tryggja öryggi og velferð barna okkar og þà annarra nemenda við skólann.
Sem dæmi skal það nefnt að börn okkar, fórnarlömb kennarans, fengu ekkert ráðrúm eða stuðning þegar skólastjóri án aðdraganda setti kennarann til starfa á ný, eftir að skýrslur fyrrnefndra sálfræðinga lágu fyrir.
Eins og áður er rakið er það mat okkar að nær öll meðferð skólastjóra í þessu máli hafi verið ófagleg. Þannig má segja að meðferð hans hafi einkum falist i „plástrum“, þar sem börnin hafa átt að víkja eða þau færð til innan skólans og bekkja. Þessar aðgerðir leiddu til þess að hvorugt barnanna (og systkini þeirra) treystu sér til þess að sækja skólann. Og nú er staðan þannig að annað þeirra barna sem á í hlut hefur flust búferlum til annars sveitarfélags þar sem það stundar nú skóla. Hitt barnið fékk eftir ítrekaðar beiðnir foreldra og eftir fund með skólanefnd kennslu utan skólasvæðisins og er ætlað að það úrræði verði notað til loka skólaársins. Þetta ber að sjálfsögðu að þakka, en ótalið er að allt annað sem tengist skólastarfinu sem börnin fara nú á mis við.
Það skal áréttað að à meðan á öllu ofangreindu ferli stóð reyndum við foreldrarnir að fá áheyrn ráðamanna í sveitarfélaginu án árangurs og formlegra viðbragða. Aldrei var hringt af fyrrabragði, aldrei var spurt fyrir um heilsu barnanna, hvorki af skólayfirvöldum eða sveitarfélaginu.
Áhrif eineltisins á andlega heilsu barna okkar eru gríðarleg. Og eftir alla þessa þrautagöngu barna okkar veltum við foreldrarnir fyrir okkur mörgum spurningum eins og: Hver vill senda barnið sitt til þessa kennara eða í þennan grunnskóla? Spurðu þig að því lesandi góður? Hver vill eiga à hættu að barn verði fyrir andlegu ofbeldi og vanlíðan og það án þess að við getum treyst því að ráðamenn og stjórnendur taki à slíkum málum af festu og fagmennsku þar sem horft er til hagsmuna barnanna okkar í hvívetna.
Okkar börn hafa borið mikið tjón af öllu þessu máli að okkar mati og það jafnvel þótt langvarandi andleg áhrif eineltisins liggi ekki fyrir á þessari stundu. Við erum hrædd, satt best að segja skíthrædd um að langvarandi ofbeldi kennarans sé óafturkræft fyrir heilsu barnanna okkar. Og nú bætir ófagleg málsmeðferð skólayfirvalda og sveitarfélagsins gráu ofan á svart. Börnin treysta engum eftir svona meðferð. Þegar þau loksins hafa sagt frá þá eru þetta viðbrögð skólans og þeirra yfirvalda sem eiga að gæta barnanna okkar og tryggja þeirra öryggi. Ekkert foreldri (hvað þá barn) vill vera í þessari aðstöðu. Sveitarfélaginu ber að tryggja að skólastarf sé í samræmi við grunnskólalög, þ.á m. að öryggi og velferð nemenda sé tryggt. Þetta hefur Grindavíkurbær, að okkar mati, ekki gert í þessum eineltismálum, og lýsir fyrrnefnd yfirlýsing takmörkuðum eða engum vilja til að taka á þessum erfiðu málum af fagmennsku.
Þá er athyglisvert að ekki hefur heyrst frá kjörnum fulltrúum bæjarbúa, fyrir utan aðgerðir skólanefndar nú nýverið. Hvenær ætla stjórnendur og aðrir ráðmenn í Grindavík að vakna af værum blundi? Ætla þeir að vakna upp við vondan draum þegar menntamálaráðuneytið hefur fellt sinn úrskurð í málunum eða þegar dómstólar hafa dæmt sveitarfélagið skaðabótaskylt í fleiri eineltismálum, en eins og kunnugt er féll héraðsdómur nýverið i slíku máli gagnvart Grindavíkurkaupstað. Er bæjarstjórinn að vísa til þess í niðurlagi yfirlýsingarinnar? Hvað þarf til að þið vaknið strax og sjáið sóma ykkar í því að koma þessum málum í lag?
Að lokum skal það sagt, að það er okkar mat að skólastjórinn og bæjarstjórinn fari með rangt mál þegar þau segja i margnefndri yfirlýsingu að í þessu máli hafi skólayfirvöld i Grindavík farið að stjórnsýslulögum, að því leyti nægir að segja frá því að þegar hinn óháði sálfræðingur var að störfum þá afhenti skólastjórinn umræddum kennara trúnaðarbréf sem annað barna okkar hafði ritað til sálfræðingsins. Trúnaðarbréfið afhenti skólastjórinn án þess að hika, og án þess að bera slíkt undir okkur foreldrana eða barnið. Þegar fyrir tilviljun þetta kemst upp hrundi veröld barnsins okkar. Að okkar mati endurspeglar þessi málsmeðferð skólastjórans þá staðreynd að hún hefur ávallt tekið hagsmuni kennarans fram yfir hagsmuni fórnarlamba hans, barnanna okkar. Þá teljum við að mörg önnur atriði í málsmeðferð skólastjórans fari gegn stjórnsýslulögum og góðum stjórnsýsluháttum, en þau atriði sem og önnur til skoðunar hjá menntamálaráðuneytinu.
Til allrar lukku ber menntamálaráðuneytið frumkvæðiseftirlitið með grunnskólum landsins. Margir hafa í okkar eyru sagt frá eineltissögu sinni úr skólatíð í Grunnskóla Grindavíkur og þà ekki síst þar sem átti í hlut umræddur kennari. Nú þegar þessi afstaða bæjarstjóra er ljós er óhjákvæmilegt annað en að við foreldrar íhugum að leita réttar okkar fyrir dómstólum vegna áhrifa eineltisins og málsmeðferðar sveitarfélagsins á börn okkar. Þykir okkur þessi staða mjög miður og óskum engum börnum eða foreldrum að ganga í gegnum þær raunir sem við höfum gert að undanförnu.
Með þessu bréfi okkar erum við að reyna að útskýra okkar hlið á þessu erfiða máli. Bréfið má ekki skilja sem hótun af okkar hálfu t.d. um málshöfðun, það er að okkar mati ótímabært à þessu stígi málsins þrátt fyrir að okkur hafi verið bent à þà leið, eftir standa hins vegar áleitnar spurningar. Er t.d. einhver vilji hjá skóla og/eða bæjaryfirvöldum i Grindavik að finna àsættanlega lausn í þessu máli börnum okkar og skólastarfi til heilla? telja nefnd yfirvöld sér fært að biðja börn okkar afsökunar eða þarf að bíða eftir àliti menntamálaráðuneytisins? Geta foreldrar i Grindavík treyst því að faglega verði tekið a eineltismálum í framtíðinni?
Eigið gleðilega páska,
Grindavík, 19. apríl 2014,
Eydna Fossádal
Viktor Scheving Ingvarsson
Guðrún Erla Hákonardóttir
Einar S Helgason.