Athugasemd við ritstjórnarpistil Víkurfrétta
Í blaði Víkurfrétta í þessari viku er grein eftir ritstjóra blaðsins. Þar er vikið að nafnalista sem afhentur var kirkjumálaráðherra og biskupi með nöfnum um 4430 manns. Í grein ritstjóra er rangt með farið að á listanum hafi verið að finna kennitölur. Jafnframt var ekki augljóst hvort um sóknarbörn úr Keflavíkurprestakalli væri að ræða. Talsvert var um heimilisföng utan prestakallsins. Það er því erfitt að álykta um hlutföll sóknarbarna út frá listanum sem afhentur var.
Enginn dregur í efa þann mikla hlýhug og stuðning sem séra Sigfús Baldvin Ingvason nýtur í Keflavík. Það á vonandi eftir að skila góðum ávöxt í öflugu kirkjustarfi í prestakallinu í framtíðinni.
Hér að neðan fylgir grein sem fjallar um þær reglur sem snúa að vali á prestum innan þjóðkirkjunnar.
Kveðja
Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir
verkefnastjóri samkirkju- og upplýsingamála Þjóðkirkjunnar.
Um ráðningu presta Þjóðkirkjunnar
Talsverð fjölmiðlaumfjöllun hefur orðið í kringum nýlega skipun sóknarprests í Keflavíkurprestakalli. Af því tilefni getur verið áhugavert að skoða málið með hliðsjón af þeim reglum sem almennt gilda um ráðningu íslenskra presta.
Forsaga málsins er sú að ekki náðist samstaða innan valnefndar um valið í Keflavíkurprestakalli. Einn nefndarmanna vildi velja sr. Sigfús B. Ingvason, sem er starfandi prestur í prestakallinu, en aðrir valnefndarmenn völdu sr. Skúla S. Ólafsson. Málinu var vísað til biskups, reglum samkvæmt. Hann mælti með þeim umsækjanda sem mestan stuðning hafði hlotið hjá valnefnd. Þar sem um sóknarprestsembætti var að ræða var það síðan dóms- og kirkjumálaráðherra sem skipaði sóknarprest og ákvað hann að skipa sr. Skúla í embættið.
Nafnalistar á Netinu
Meðan málið var hjá ráðherra söfnuðu fylgismenn sr. Sigfúsar nafnalistum á Netinu og afhentu þeir ráðherra og biskupi lista með rúmlega 4400 nöfnum. Ekki er hægt að fullyrða út frá listunum sem afhentir voru hve margir á þeim eru sóknarbörn í Keflavíkurprestakalli. Ljóst er þó að margir utan sóknar skrifuðu nöfn sín á þá, bæði fólk úr nálægum sveitarfélögum og fjarlægari. Þá kemur aldur þeirra sem skrifuðu á listann ekki fram þar sem kennitölur fylgja ekki. Það er þó augljóst að sr. Sigfús á marga vini og stuðningsmenn í Reykjanesbæ og að mörgum þeirra finnst rétt að niðurstöðum valnefndar verði breytt vegna íhlutunar þeirra.
Þess ber að geta að skiptar skoðanir um val á presti í Keflavíkurprestakalli beindust ekki að hæfi eða persónu prestanna tveggja. Fulltrúar stuðningsmanna sr. Sigfúsar tóku fram að þeir hefðu ekkert á móti sr. Skúla S. Ólafssyni, þeir vildu einungis lýsa stuðningi við sr. Sigfús B. Ingvason. Meirihluti valnefndar tók fram að hann æskti að sr. Sigfús sinnti áfram starfi sínu sem prestur í Keflavík.
Hvaða reglur gilda?
Ekki eru nema tæpir tveir áratugir síðan almennar prestkosningar voru afnumdar sem hefðbundin leið til að velja sóknarprest. Fram að þeim tíma höfðu prestar og guðfræðingar þurft að taka sér frí, leigja sér kosningaaðstöðu, fá jafnvel einhvern til að sinna kosningastjórn og leggja á sig heilmikla vinnu og jafnvel talsverðan kostnað við að kynna sig fyrir fólki á væntanlegum vinnustað. Alltaf komust færri að en vildu og stundum urðu kosningarnar til þess að langvinnar illdeilur spruttu upp í söfnuðinum.
Fyrst eftir að reglum um val á prestum var breytt var það hlutverk sóknarnefnda að velja presta en síðar var sérstökum valnefndum falið það hlutverk með starfsreglum árið 1998. Frá því að þær tóku við hefur 61 prestur hlotið embætti með valnefndarferli. Í 57 skipti var samstaða í valnefnd, í þrjú skipti náðist ekki samstaða og í eitt skipti var farið fram á almenna prestskosningu. Í þau þrjú skipti sem ekki náðist samstaða var mælt með þeim umsækjanda sem mestan stuðning hafði hlotið hjá valnefnd. Af þessari víðtæku samstöðu í valnefndum má draga þá ályktun að þetta fyrirkomulag hafi reynst vel og að yfirleitt hafi verið sátt í söfnuðunum um niðurstöðuna.
Hvaðan kemur valnefndin?
Fjallað er um val á prestum í starfsreglum um presta (nr. 735/1998). Þar segir: „Valnefnd velur sóknarprest og prest. Hún skal skipuð viðkomandi vígslubiskupi, og fimm fulltrúum prestakalls. Fulltrúar prestakalls og jafnmargir varamenn þeirra eru valdir til fjögurra ára á sóknarnefndarfundi eða á sameiginlegum fundi sóknarnefnda í prestaköllum þar sem sóknir eru fleiri en ein.“ Samkvæmt starfsreglunum eru ráðherra og biskup enn fremur bundnir af niðurstöðum valnefndar þegar hún er einhuga um niðurstöðuna.
Sem sjá má gilda mjög ákveðnar starfsreglur um val á prestum og þær byggjast á því að sjónarmið grasrótarinnar í söfnuðinum komi vel fram. Reglurnar eiga einnig að tryggja sanngirni sé gætt og að allir sem sækja um embætti fái möguleika á að kynna sig fyrir valnefnd sem síðan metur hvern hún vill ráða út frá umsóknum og atvinnuviðtali. Í flestum sóknum eru valnefndir skipaðar af þeim leikmönnum sem bera mesta ábyrgð á starfi safnaðarins ásamt presti. Starf í sóknarnefnd er sjálfboðastarf og sóknarnefndarfólk er valið á aðalsafnaðarfundum. Hér gildir því fulltrúalýðræði, sambærilegt við þá stjórnunaraðferð sem Íslendingar hafa valið við framkvæmd lýðræðis bæði í sveitarstjórn og landsstjórn.
Lýðræðislegar leiðir
Verði reglur um val á prestum endurskoðaðar þarf það ferli að fara eftir þeim lýðræðislegu leiðum sem eru til staðar innan Þjóðkirkjunnar. Um það ferli þarf einnig að ríkja jafn mikil sátt og verið hefur um valnefndarferlið hingað til. Miðað við niðurstöður undanfarinna ára virðist það ferli hafa endurspeglað vel vilja þess fólks sem er virkt í starfi innan kirkjunnar.
Enginn dregur í efa þann mikla hlýhug og stuðning sem séra Sigfús Baldvin Ingvason nýtur í Keflavík. Það á vonandi eftir að skila góðum ávöxt í öflugu kirkjustarfi í prestakallinu í framtíðinni.
Hér að neðan fylgir grein sem fjallar um þær reglur sem snúa að vali á prestum innan þjóðkirkjunnar.
Kveðja
Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir
verkefnastjóri samkirkju- og upplýsingamála Þjóðkirkjunnar.
Um ráðningu presta Þjóðkirkjunnar
Talsverð fjölmiðlaumfjöllun hefur orðið í kringum nýlega skipun sóknarprests í Keflavíkurprestakalli. Af því tilefni getur verið áhugavert að skoða málið með hliðsjón af þeim reglum sem almennt gilda um ráðningu íslenskra presta.
Forsaga málsins er sú að ekki náðist samstaða innan valnefndar um valið í Keflavíkurprestakalli. Einn nefndarmanna vildi velja sr. Sigfús B. Ingvason, sem er starfandi prestur í prestakallinu, en aðrir valnefndarmenn völdu sr. Skúla S. Ólafsson. Málinu var vísað til biskups, reglum samkvæmt. Hann mælti með þeim umsækjanda sem mestan stuðning hafði hlotið hjá valnefnd. Þar sem um sóknarprestsembætti var að ræða var það síðan dóms- og kirkjumálaráðherra sem skipaði sóknarprest og ákvað hann að skipa sr. Skúla í embættið.
Nafnalistar á Netinu
Meðan málið var hjá ráðherra söfnuðu fylgismenn sr. Sigfúsar nafnalistum á Netinu og afhentu þeir ráðherra og biskupi lista með rúmlega 4400 nöfnum. Ekki er hægt að fullyrða út frá listunum sem afhentir voru hve margir á þeim eru sóknarbörn í Keflavíkurprestakalli. Ljóst er þó að margir utan sóknar skrifuðu nöfn sín á þá, bæði fólk úr nálægum sveitarfélögum og fjarlægari. Þá kemur aldur þeirra sem skrifuðu á listann ekki fram þar sem kennitölur fylgja ekki. Það er þó augljóst að sr. Sigfús á marga vini og stuðningsmenn í Reykjanesbæ og að mörgum þeirra finnst rétt að niðurstöðum valnefndar verði breytt vegna íhlutunar þeirra.
Þess ber að geta að skiptar skoðanir um val á presti í Keflavíkurprestakalli beindust ekki að hæfi eða persónu prestanna tveggja. Fulltrúar stuðningsmanna sr. Sigfúsar tóku fram að þeir hefðu ekkert á móti sr. Skúla S. Ólafssyni, þeir vildu einungis lýsa stuðningi við sr. Sigfús B. Ingvason. Meirihluti valnefndar tók fram að hann æskti að sr. Sigfús sinnti áfram starfi sínu sem prestur í Keflavík.
Hvaða reglur gilda?
Ekki eru nema tæpir tveir áratugir síðan almennar prestkosningar voru afnumdar sem hefðbundin leið til að velja sóknarprest. Fram að þeim tíma höfðu prestar og guðfræðingar þurft að taka sér frí, leigja sér kosningaaðstöðu, fá jafnvel einhvern til að sinna kosningastjórn og leggja á sig heilmikla vinnu og jafnvel talsverðan kostnað við að kynna sig fyrir fólki á væntanlegum vinnustað. Alltaf komust færri að en vildu og stundum urðu kosningarnar til þess að langvinnar illdeilur spruttu upp í söfnuðinum.
Fyrst eftir að reglum um val á prestum var breytt var það hlutverk sóknarnefnda að velja presta en síðar var sérstökum valnefndum falið það hlutverk með starfsreglum árið 1998. Frá því að þær tóku við hefur 61 prestur hlotið embætti með valnefndarferli. Í 57 skipti var samstaða í valnefnd, í þrjú skipti náðist ekki samstaða og í eitt skipti var farið fram á almenna prestskosningu. Í þau þrjú skipti sem ekki náðist samstaða var mælt með þeim umsækjanda sem mestan stuðning hafði hlotið hjá valnefnd. Af þessari víðtæku samstöðu í valnefndum má draga þá ályktun að þetta fyrirkomulag hafi reynst vel og að yfirleitt hafi verið sátt í söfnuðunum um niðurstöðuna.
Hvaðan kemur valnefndin?
Fjallað er um val á prestum í starfsreglum um presta (nr. 735/1998). Þar segir: „Valnefnd velur sóknarprest og prest. Hún skal skipuð viðkomandi vígslubiskupi, og fimm fulltrúum prestakalls. Fulltrúar prestakalls og jafnmargir varamenn þeirra eru valdir til fjögurra ára á sóknarnefndarfundi eða á sameiginlegum fundi sóknarnefnda í prestaköllum þar sem sóknir eru fleiri en ein.“ Samkvæmt starfsreglunum eru ráðherra og biskup enn fremur bundnir af niðurstöðum valnefndar þegar hún er einhuga um niðurstöðuna.
Sem sjá má gilda mjög ákveðnar starfsreglur um val á prestum og þær byggjast á því að sjónarmið grasrótarinnar í söfnuðinum komi vel fram. Reglurnar eiga einnig að tryggja sanngirni sé gætt og að allir sem sækja um embætti fái möguleika á að kynna sig fyrir valnefnd sem síðan metur hvern hún vill ráða út frá umsóknum og atvinnuviðtali. Í flestum sóknum eru valnefndir skipaðar af þeim leikmönnum sem bera mesta ábyrgð á starfi safnaðarins ásamt presti. Starf í sóknarnefnd er sjálfboðastarf og sóknarnefndarfólk er valið á aðalsafnaðarfundum. Hér gildir því fulltrúalýðræði, sambærilegt við þá stjórnunaraðferð sem Íslendingar hafa valið við framkvæmd lýðræðis bæði í sveitarstjórn og landsstjórn.
Lýðræðislegar leiðir
Verði reglur um val á prestum endurskoðaðar þarf það ferli að fara eftir þeim lýðræðislegu leiðum sem eru til staðar innan Þjóðkirkjunnar. Um það ferli þarf einnig að ríkja jafn mikil sátt og verið hefur um valnefndarferlið hingað til. Miðað við niðurstöður undanfarinna ára virðist það ferli hafa endurspeglað vel vilja þess fólks sem er virkt í starfi innan kirkjunnar.