Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Athugasemd við frétt um aðalfund FSS
Föstudagur 30. nóvember 2012 kl. 15:00

Athugasemd við frétt um aðalfund FSS

Ég tel mig knúinn til að gera athugasemd við forsíðufrétt Víkurfrétta í síðasta blaði um aðalfund FSS. Þar er fullyrt að ég hafi dæmt aðalfundinn ólöglegan vegna mótframboðs og er látið í það skína að ég hafi gert það vegna eigin hagsmuna. Þetta er alrangt, ég dæmdi aðalfundinn aldrei ólöglegan. Aðalfundinum var frestað og ekki að minni tillögu heldur kom tillaga um frestun innan stjórnar FSS. Það var gert til að gefa fólkinu sem kom óvænt á fundinn kost á því að ganga í félagið til að geta kosið á aðalfundi. Ef aðalfundurinn hefði verið dæmdur ólöglegur hefði ekki verið hægt að halda framhaldsaðalfundinn sem var haldinn 20. þ.m. heldur hefði þurft að boða til nýs aðalfundar.  
Í fréttinni er einnig fjallað um væntanlegt brotthvarf mitt frá Markaðsstofu Suðurnesja þar sem ég hef gegnt stöðu framkvæmdastjóra frá byrjun. Bara svo það sé á hreinu þá tilkynnti ég stjórn Markaðsstofunnar í september sl. að ég vildi hætta sem framkvæmdastjóri og leitað yrði að nýjum framkvæmdastjóra sem fyrst. Þetta tilkynnti ég einnig SSS, en að láta þá vita tengdist því að ég hef unnið að því ásamt stjórn MS að Heklan yrði stór aðili að Markaðsstofunni. Okkur tókst að ná þessari breytingu fram og er Heklan nú með meirihlutann í stjórn Markaðsstofu Suðurnesja.
Mér þótti miður að félagar mínir úr fyrri stjórn, þau Helga Ingimundardóttir, Reynir Sveinsson og Óskar Sævarsson voru ekki kjörin í nýja stjórn FSS. Þau þekkja Reykjanesið betur en flestir aðrir og hafa starfað í samtökunum áratugum saman. Það var ómetanlegt fyrir mig þau 10 ár sem ég var formaður að hafa þau mér við hlið. Með þeim og fleirum hefur FSS unnið stórvirki í uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum. Á meðal verkefna sem FSS hefur unnið að á síðustu 10 árum er m.a. stofnun Markaðsstofu Suðurnesja, uppbyggingin við Gunnuhver, endurgerð aðgengis að Garðskagavita, uppsetning sjónskífu á Keili, hlaðin náttúrulaug við Reykjanesvita, stofnun 100 gíga garðsins, stikun 17 fornra þjóðleiða á Reykjanesinu og gönguleiðakort, aðild að stofnun ReykjanesGeopark, ráðstefna um geotourism og frumhönnun að þjónustuhúsinu Valan við Valahnúk. Á vegum Markaðsstofunnar hefur svo verið unnið að fjölda verkefna. Vil ég þakka öllu því góða fólki sem ég hef unnið með fyrir frábært samstarf.

Að lokum vil ég óska nýrri stjórn FSS velfarnaðar í störfum sínum fyrir ferðaþjónustuna á Suðurnesjum.

Kristján Pálsson
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024