Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Athugasemd frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum
Þriðjudagur 27. október 2009 kl. 17:36

Athugasemd frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum

Vegna fréttar á Vísi.is í dag kl. 12:04 undir fyrirsögninni „Vilja að lögreglustjórinn biðjist afsökunar“  vill Lögreglustjórinn á Suðurnesjum koma á framfæri  eftirfarandi upplýsingum.


Lögreglan á Suðurnesjum hefur unnið að rannsókn á ætluðu mansali og skipulagðri glæpastarfsemi  eins og þekkt er orðið. Meðal rannsóknaraðgerða var að handtaka grunaðan mann og gera húsleit á heimili hans á höfuðborgarsvæðinu þriðjudaginn 20. október sl. að undangegnum húsleitarúrskurði Héraðsdóms Reykjaness.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Í aðgerðum sínum hefur lögreglan að leiðarljósi að ganga ekki harðar fram en þörf er á við framkvæmd starfa sinna og gætir þess sérstaklega þegar börn eiga í hlut á vettvangi. Í þessu tilviki fóru fimm óeinkennisklæddir lögreglumenn að húsinu og þar utandyra hittu þeir eiginkonu grunaða ásamt tveimur  börnum hennar. Lögreglan kynnti konunni fyrirhugaðar aðgerðir. Konan fékk að hringja í móður sína og síðan í vinkonu sína sem hún bað um að sækja börnin. Eldra barnið, telpa, fór á brott með vinkonu sinni og var það með vitund og vilja móðurinnar.  

 
Eiginmaður konunnar kom heim og var mjög æstur og dónalegur við lögreglumenn og og sýndi þá hegðun að syni sínum ásjáandi. Maðurinn var síðan handtekinn í húsinu vegna hegðunar sinnar og færður í handjárn. Hvorugt barnið varð vitni að þeirri aðgerð né þegar maðurinn var fluttur á brott af heimilinu af tveimur einkennisklæddum lögreglumönnum. Kona kom á vettvang og tók drenginn á brott með sér að ósk móðurinnar. Húsleit var gerð á heimilinu að konunni og lögmanni viðstöddum.


Alls tóku 13 óeinkennisklæddir lögreglumenn þátt í aðgerðinni auk tveggja einkennisklæddra sem færðu hinn handtekna á brott. Þessir lögreglumenn voru ekki allir á vettvangi á sama tíma. Meðan á aðgerðinni stóð var konan ósamvinnuþýð og neitaði að gefa upplýsingar sem óskað var eftir. Ákveðið var að handtaka hana og færa til yfirheyrslu. Engri valdbeitingu var beitt við handtöku konunnar og var hún færð í fangageymslu eftir að húsleit  lauk en aðgerðin stóð í um 4 klukkustundir.


Með hliðsjón af framangreindu er atvikaalýsingu Sveins Andra Sveinssonar, lögmanns, alfarið hafnað.
                                                                               
Sigríður Björk Guðjónsdóttir,

lögreglustjóri á Suðurnesjum