Athugasemdir við grein í tímaritinu Faxa

Njarðvíkum 3. janúar 2019.
 
Sjálfum mér, eins og reyndar mörgum öðrum hér suður með sjó, finnst ákaflega gaman að fletta í gegnum nýjasta tölublað Málfundarfélagsins Faxa sem inniheldur oftar en ekki margvísilegan fróðleik. Eru öllum þeim standa að útgáfunni færðar hinar bestu þakkir fyrir framlag sitt.
 
Það var því frekar dapurlegt að lesa það skrifað var um „þrjár menningastofnanir sem fagna stórafmæli“ þegar kom að Bókasafni Reykjanesbæjar.
 
Það mætti halda að hvorki Hafnir eða Njarðvíkur hefðu nokkurn tímann verið til.
 
Ekkert er getið um lestrarfélög sem til staðar voru bæði í Höfnum og Njarðvíkum, Bókasafn Njarðvíkur, né getið um það ágæta hugsjónafólk sem þar lagði hönd á plóg.
 
Hér hefði sá er ritar greinina e.t.v. mátt leggjast í aðeins meiri heimildarvinnu og ekki þarf að leita langt því m.a. er stiklað á stóru um hvernig Bókasafn Reykjanesbæjar varð til á heimsíðu bæjarins. 
 
Hafa skal það sem sannara reynist í þessum efnum, eins og reifað er í stuttu máli hér á eftir:
 
Haustið 1943 var Lestrarfélagið Fróði stofnað í Njarðvíkum. Bókavörður var skólastóri Njarðvíkurskóla, Sigurbjörn Ketilsson. Fékk lestrarfélagið aðstöðu í kennarstofu skólans. 
Árið 1956 var Bókasafn Njarðvíkur stofnað.
 
Eftir byggingu Félagsheimilsins Stapa, sem vígt var 23. október 1965, fékk safnið þar inni.
 
Árið 1975 flutti safnið aftur í skólann, í kjallara nýbyggingar sem þá var verið að taka í notkun. Þar var safnið í 124 m2 húsnæði ásamt skólabókasafni grunnskólans.
 
Í Höfnum starfaði Lestrarfélag Hafna, sem m.a. höfðu umsjón með um langt árabil sæmdarhjónin Hólmfríður Oddsdóttir og Vilhjálmur Hinrik Ívarsson, foreldrar söngelsku systkinanna Vilhjálms Vilhjálmssonar og Hennýar Eldeyjar Vilhjálmsdóttur, betur þekkt sem Ellý Vilhjálms.
 
Var lestrarfélagið til húsa í barnaskólanum, sem tók til starfa árið 1907, í íbúðarhúsi sem hreppurinn keypti til skólahalds. Eftir að það hús brann fluttist félagið í nýtt samkomu- og skólahús, sem byggt var árið 1936 og þjónar í dag sem safnaðarheimili Kirkjuvogskirkju.
 
Við sameiningu sveitarfélaganna Hafna, Keflavíkur og Njarðvíkur árið 1994 sameinuðust Lestrarfélag Hafna, Bókasafn Keflavíkur og Bókasafn Njarðvíkur undir merkjum Bókasafns Reykjanesbæjar.
 
Með vinsemd og virðingu,
Stefán Thordersen.