Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 25. mars 2004 kl. 12:42

Ástir og samlíf Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms Péturssonar

Næst komandi þriðjudagskvöld lýkur námskeiði Steinunnar Jóhannesdóttur um Tyrkjaránið 1627, Guðríði Símonardóttur og Hallgrím Pétursson sem haldið hefur verið
í Safnaðarheimilinu í Sandgerði nú í mars. Lokafyrirlesturinn fjallar um ástir og samlíf Guðríðar og Hallgríms með höfuðáherslu á 14 fyrstu sambúðarár þeirra á Suðurnesjum. Þau komu með vorskipi til Keflavíkur 1637, bjuggu um tíma í hjáleigu frá Ytri-Njarðvík en 1644 var Hallgrímur vígður til prests í Hvalsnesi og þar bjuggu þau uns þau fluttu búferlum að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Þar hlaut Hallgrímur prestsembætti 1651.
Margvíslegir erfiðleikar mættu Hallgrími og Guðríði við komuna til Íslands, m.a flókin málferli vegna barneignarbrots, fátækt og barnamissir. Á Suðurnesjum eignuðust þau öfluga bandamenn en einnig volduga óvini sem settu mark sitt á líf þeirra og lífsafstöðu. Þau deildu kjörum með alþýðu manna og meðal hennar mótaðist skáldið Hallgrímur Pétursson. Skáldgáfa hans slípaðist með bættum hag og aukinni ástundun í Saurbæ og þar náði hann hátindi iðju sinnar í Pássíusálmunum.
 Steinunn Jóhannesdóttir hefur undanfarin ár rannsakað sögu Hallgríms og Guðríðar og samferðafólks þeirra á Suðurnesjum og mun í fyrirlestrinum skýra frá nokkrum niðurstöðum sínum. Fyrirlesturinn þriðjudaginn 30. mars er öllum opinn og hefst kl.20: 30 í Safnaðarheimilinu í Sandgerði. Þeir sem ekki eru þáttakendur í námskeiðinu greiði 1500.- kr. í aðgangseyri. 

Björn Sveinn Björnsson, sóknarprestur Útskálum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024