Ástandið hefur áhrif
Nánast upp á hvern einasta dag eru ökumenn og aðrir teknir undir áhrifum ólöglegra fíkniefna og/eða annara vímugjafa, ég verð að segja að það er til fyrirmyndar hvað lögreglan er vel vakandi yfir því. Þetta er orðið daglegt brauð, get ekki annað en velt því fyrir mér hvort þessi aukning sé bæði á ungum sem öldnum neytendum vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Hefur þetta krepputal mikil áhrif? Auðvitað hefur það áhrif og eflaust eru margar aðrar ástæður fyrir því líka. En hvað sem því líður þá eru margir aðstandendur sem líða fyrir það og ættu því einnig að leita sér svara og aðstoðar fyrir sig.
Námsráðgjafi hafði samband við mig nú nýverið eftir að ungur nemandi ræddi málin við hann, sagði hann ástandið á sínu heimili ekki gott vegna vegna alls þess sem er að gerast í þjóðfélaginu. Segir nemandinn að foreldrarnir séu farnir að drekka miklu meira og rífast. Barninu líður því illa yfir því og hefur það veruleg áhrif á nám og andlega vanlíðan hjá því. Barnið segir það valda sér kvíða og ótta, vill síður vera heima, þar sem honum á að líða vel.
Hvað er hægt að gera? Er eitthvað fyrir krakka/unglinga t.d hjá Lundi eða annarstaðar? Það er ýmislegt hægt að gera, t.d. taka upp símann og hringja, það er oft á tíðum fyrsta skrefið, fólk verður oft undrandi á því hvað því líður miklu betur og hversu miklu það getur breytt líðaninni að tala við einhvern, þá einhvern sem hefur reynslu og vitneskju. Yfirleitt gerist eitthvað gott og oft gerast undur.
Námsráðgjafinn tjáði mér einnig að hann hafi tekið eftir miklum breytingum hjá nemendum eftir að þessi holskefla skall á okkur. Nemendur koma oftar en ekki verr lærð í skólann en áður, jafnvel illa til höfð vegna ástandsins sem er að skapast á heimilinu vegna alls þessa. Eins og ég hef áður sagt, við eigum ekki að taka þátt í þessu, hugum frekar að okkur sjálfum og þeim sem við elskum og okkur þykir vænt um.
Á skólaönn 07-08 fór Lundur 30 sinnum með fyrirlestra um forvarnir í FLESTA skóla á Suðurnesjum auk ýmissa klúbba, vinnustaða svo og kynningar í Lundi á Fitjabraut 6c. Núna á þessari önn sem var að ljúka hefur ENGINN skóli haft samband, það er með ólíkindum, eins og ástandið er. Hefur Lundur þegið tvisvar boð frá Lions, þökkum við fyrir þau boð. Vona ég að það verði breyting á nýju ári. Lundur verður framvegis með opna kynningarfundi í Lundi að Fitjabraut 6c, annan miðvikudag í mánuði, næst 14 janúar 2009. Verðum líka með meðvirkni/fjölskyldu námskeið í Lundi 24. og 25. janúar ef næg þátttaka fæst. Skráning er hafin í síma 772-5463 / 864-5452 og á netfangið [email protected].
Nánar auglýst á www.lundur.net
Jóla jóla kveðjur
Erlingur Jónsson