Ásmundur er maður framkvæmda
Ég er ekki skráður félagi í Sjálfstæðisflokknum, reyndar er ég óflokksbundin svo „brugðið getur til beggja vona“ eins og maðurinn sagði. Samt sem áður tel ég mig geta með stolti stutt Ásmund í sinni kosningabaráttu.
Hér er á ferðinni maður sem hefur manngildi í fyrirrúmi og hvaða flokkur sem er væri sómi af að hafa í sínu liði. Ásmundur hefur ekki bara talað um að hann styðji og berjist fyrir sjálfstæði fólks og mannreisn heldur hefur hann sýnt það í verki með því að vinna ötullega að bættu aðgengi fyrir fatlað fólk í Sveitarfélaginu Garði. Hann sýndi einnig það hugrekki að láta skrá aðgengi að öllum helstu mannvirkjum sveitarfélagsins Garðs og birta þær niðurstöður á vef AccessIceland.is þar sem fólk með fötlun eða aðstandendur þeirra geta farið inn og skoðað hvernig aðgengismálum er háttað á hverjum stað fyrir sig. Staðreyndin er sú að flestar þjónustustofnanir sveitarfélaga eru í eldra húsnæði og oftar en ekki þarf að fara í framkvæmdir til að bæta aðgengi svo allir geti nýtt sér þá þjónustu sem er í boði.
Þegar illa árar hjá stofnunum og fyrirtækjum vill það oft brenna við að málefni sem tengjast velferð eða fötlun séu sett á bið vegna kostnaðar, þá er ekki verið að horfa á mannlega þáttinn. Í kjölfar skráninganna fékk sveitarfélagið skýrslur sem hægt er að nota sem forgangsröðun verkefna sem bæta þarf með tilliti til aðgengis. Ásmundur lét ekki sitt eftir liggja og lét bæta úr öllum þeim atriðum sem brýnust voru. Nú getur sveitarfélagið Garður með stolti boðið öllum, óháð líkamlegu atgervi, í heimsókn og heimafólk sem og gestirnir geta lesið sig til um aðstæður áður en þeir koma á staðinn.
Ásmundur er maður framkvæmda og ég treysti honum fyrir að efla virkni og þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu.
Harpa Cilia Ingólfsdóttir,
byggingafræðingur og ferliráðgjafi.