Ásmund Friðriksson í 3. sæti
Íbúar Suðurkjördæmis, nú er prófkjör okkar sjálfstæðismanna um næstu helgi og gefur það okkur kost á að velja milli margra góðra frambjóðenda. Einn af þeim er Ásmundur Friðriksson fyrrverandi bæjarstjóri í Garði. Hér er á ferðinni kraftmikill einstaklingur og við sem höfum unnið með honum vitum hve duglegur og vinnusamur hann er. Hann er mjög fylginn sér og klárar þau verk sem hann tekur sér fyrir hendur.
Ásmundur hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, þekkir vel til málefna sveitarfélaga eftir að hafa verið bæjarstjóri í Garði í rúm 3 ár auk þess að hafa mikla reynslu af félagsmálum í breiðum skilningi þess orðs.
Nú eru framundan átök um framtíð Íslands og hvaða stefnu skuli taka. Baráttan fyrir bættum hag fólksins mun verða enn háværari og mikilvægi þess að létta skuldabagga heimilanna mun verða baráttumál á komandi misserum. Í þeirri baráttu er mikilvægt að rödd almennings hljómi hátt og með því að velja Ásmund í öruggt þingsæti erum við sannfærð um að hagsmunir fólksins munu hafa forgang enda er Ásmundur í góðu sambandi við fólk, fólkið sem hefur þurft að færa miklar fórnir á síðustu árum.
Við hvetjum ykkur því að velja Ásmund Friðriksson í 3. sæti í prófkjörinu 26. janúar nk.
Einar Jón Pálsson,
Brynja Kristjánsdóttir,
Gísli Heiðarsson,
Einar Tryggvason,
bæjarfulltrúar Garði