Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ásmund á þing!
Föstudagur 11. janúar 2013 kl. 10:14

Ásmund á þing!

Sunnlendingar eru lánsamir fyrir komandi kosningar í vor. Þar verður,  ef Sjálfstæðismönnum ber gæfa til að velja reynslumikið fólk á sinn lista, mikið af hæfu fólki til að velja um til að taka á málum sem bráðnauðsynlegt er að taka á strax.

Ég hef aldrei verið flokksbundinn en kýs menn og málefni í hvert sinn sem tækifæri gefst. Einn er sá maður sem gott væri að eiga sem þingmann, þingmann allra landsmanna, sá heitir Ásmundur Friðriksson og er fyrrverandi bæjarstjóri í Garði. Því skora ég á Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi að velja hann í eitt af efstu sætum listans.

Ási er lífsreyndur maður í sveitarstjórnarmálum, félagsmálum og þekkir af eigin raun vandamál sem atvinnurekendur búa við. Ási er maður sem ekkert aumt má sjá og gerir alltaf allt sem hann getur til að aðstoða náunga sinn. Ási hefur verið mér styrk stoð í verkefnum sem ég hef fengið hann með mér í fyrir MND félagið. Þar er af mörgu að taka en til að nefna eitthvað þá er bætt aðstaða mikið fatlaðra á Heilsustofnuninni í Hveragerði honum að mestu að þakka, bætt aðgengi og áætlun um úrbætur í Garði fyrir alla fatlaða þar er algerlega honum að þakka að ekki sé minnst á skötumessu að sumri sem styrkt hefur mannúðarmálefni um hundruðir þúsunda króna í gegnum tíðina. Já við jafnvel borðum til góðs.

Það er nægt framboð af einstaklingum sem tala og tala um að þetta eða hitt þurfi að gera. Okkur vantar fólk sem talar og framkvæmir það sem rætt er um. Þannig er Ási, framkvæmir það sem aðrir ræða endalaust um.

Því vona ég að Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi velji þennan hörkuduglega og strangheiðarlega mann til að vera í efstu sætum síns lista fyrir komandi kosningar til Alþingis. Þá munu þau og allir Íslendingar eiga sér frábæran talsmann á Alþingi Íslendinga.

Guðjón Sigurðsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024