Áskorun um að fella niður gjöld af aukasorpi
- frá íbúum Reykjaness
Heil og sæl ágætu stjórnendur á Reykjanesi.
Ég undirritaður skora á ykkur sem stjórnið sveitarfélögunum sem byggja Reykjanesið um að fella úr gildi þetta gjald sem lagt er á fólk sem þarf að losa sig við auka sorp eða drasl (í mínum huga hráefni) sem kemur inn á gámaplönin ykkar hjá Kölku. Í átján ár hef ég reynt að sýna fram á það með endalausum verkefnum í tengslum við bættari og betri umgengni um náttúru landsins og nærumhverfi hvernig við eigum og ættum að ganga betur um landið okkar, ekki bara fyrir okkur sjálf heldur komandi kynslóðir og til eftirbreytni fyrir aðra. Á þessum átján árum hef ég notið þeirra forréttinda að hafa fengið að kynnast fjölmörgum stjórnendum þessa lands, bæði til Alþingis og sveitarstjórna. Núna er komið að tímamótum, ég hef ekki lengur þann vilja né áhuga á því að berjast við vindmyllur samtímans í baráttunni fyrir hreinu og ómenguðu landi mínu.
Blái herinn minn hefur hreinsað upp 1000 tonn af rusli af Reykjanesinu, notað hart nær 50 þúsund vinnustundir í sjálfboðaliðsvinnu og frætt og flutt hundruð fyrirlestra og kynningar til að reyna að breyta rétt hjá okkar ágætu samborgurum.
Núna hef ég heyrt frá öruggum heimildum að þetta sorpgjald verði ekki fellt niður, áfram mun því fólk sem ekki hefur neina löngun til þess að heimsækja Kölku til að losa sig við sorpið sitt sem það þarf að borga fyrir HENDA því á alla þá staði sem því dettur í hug, það mun því halda áfram sú ómenning sem nokkrir einstaklingar hafa komist upp með og hafa gert undanfarin ár og skapað ómæld útgjöld fyrir ykkur svo ekki sé minnst á stimpilinn um óhreina náttúru og nærumhverfi.
Þegar ég lít yfir farin veg er ég bara sáttur með það að hafa reynt að hafa jákvæð áhrif á þjóð mína. Þið hafið aldrei fengið svona bréf frá mér áður en núna er ég orðin uppgefinn á að tína upp rusl eftir samborgarana mína. Það er engum hollt að berjast en þetta er komið nóg.
Kærar þakkir fyrir gott samstarf í gegnum tíðina og farnist ykkur vel. Ruslið er ykkar og gangi ykkur vel að tína það upp. Bara frá áramótum hefur Blái herinn hreinsað upp líklega um 20 tonn frá Patterson-svæðinu en á morgun líkur því verkegni og eftirleikurinn um annað rusl á Reykjanesinu verður í ykkar höndum.
Með vinsemd og virðingu,
Tómas J. Knútsson,
formaður Bláa hersins